Lyfjalög

Þriðjudaginn 17. nóvember 2009, kl. 17:00:38 (0)


138. löggjafarþing — 27. fundur,  17. nóv. 2009.

lyfjalög.

198. mál
[17:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu. Mér finnst hins vegar ómögulegt að enda umræðuna með þessum hætti þótt ekki sé loku fyrir það skotið að einhver annar endi hana en ég.

Ég lít svo á að í fyrsta lagi þurfi að horfa á þetta í stóru samhengi. Síðan er spurningin hvort við höldum áfram að fresta þessu ákvæði og höldum okkur þá við þá stefnu að ætla að breyta kostnaðarþátttökukerfinu. Mér finnst þetta í rauninni vera spurning um það, hvort við ætlum að breyta kostnaðarþátttökukerfinu og halda okkur við það og þá stefnumörkun sem var lagt upp með og séum með ákveðna svipu á okkur því að það þarf ansi mikið til að svo megi verða. Ég held að við verðum að ræða í fullri alvöru hvort við ætlum að halda okkur við það að breyta kostnaðarþátttökukerfinu sem öll sjúklingasamtök mér vitanlega hafa farið fram á eða hvort við ætlum að gefa það upp á bátinn um einhverja framtíð. Mér finnst málið snúast um það. Ég á von á að við munum fara yfir þetta í góðu tómi í nefndinni og síðan í þingsal ef svo ber undir.