Áhrif fyrningar aflaheimilda

Miðvikudaginn 18. nóvember 2009, kl. 12:44:23 (0)


138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

áhrif fyrningar aflaheimilda.

123. mál
[12:44]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Frú forseti. Samkvæmt því sem fram kemur í nýútgefinni skýrslu Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika námu útistandandi lán íslenskra lánastofnana til innlendra fyrirtækja rúmlega 4.600 milljörðum kr. í lok júní í ár. Stærstu skuldunautar eru eignarhaldsfélög með um 39% af heildarútlánum. Að eignarhaldsfélögum frátöldum eru þjónustufyrirtæki stærstu skuldunautarnir með tæp 26% af heildarútlánum til fyrirtækja. Útlán til sjávarútvegsfyrirtækja sem hér verða sérstaklega gerð að umtalsefni nema 11,5% og lán til fyrirtækja í verslun um 9%. Sjávarútvegsfyrirtæki eru því með um 11% af heildarútlánum til fyrirtækja og mun þar nær eingöngu vera um erlend lán að ræða eða því sem næst 95%. Rúmlega helmingur erlendra lána er tekinn í svokölluðum lágvaxtagjaldmiðlum, sérstaklega svissneskum frönkum og japönskum jenum, á meðan 25% eru í evrum. Tæplega 40% útflutnings sjávarafurða eru hins vegar í evrum, fjórðungur í breskum pundum og rúmlega fimmtungur í bandaríkjadölum. Mjög lítill hluti útflutningstekna er hins vegar í japönskum jenum og svissneskum frönkum, ólíkt skuldsetningunni. Þetta misræmi í gjaldmiðlasamsetningu tekjuöflunar og útlána getur því valdið erfiðleikum fyrir rekstur sjávarútvegsfyrirtækja ef möguleikar til áhættuvarna eru ekki fyrir hendi.

Nokkuð hátt hlutfall höfuðstóls erlendra lána sjávarútvegsfyrirtækja hefur verið fryst eða um 21% útistandandi lána. Það kann að koma nokkuð á óvart í ljósi þess að tekjur þessara fyrirtækja eru mestmegnis í erlendum gjaldmiðlum og þau verða því almennt ekki fyrir tjóni vegna falls krónunnar, raunar þvert á móti. Fyrir þessu gætu verið nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi getur verið að ofangreint misræmi milli gjaldmiðlaskiptingar útflutnings og lána hafi hækkað greiðslubyrði lána umfram hækkun tekna. Í öðru lagi getur verið að bankar séu viljugri til að veita sjávarútvegsfyrirtækjum frystingu en öðrum atvinnuvegum þar sem þeir meta þau fyrirtæki lífvænlegri en önnur. Loks er mögulegt að fyrirtækin séu að leitast eftir að hámarka gjaldeyristekjur sínar með því að geyma greiðslur vegna útflutnings og frysta lánin í von um hagstæðari gengisþróun. Hér verður þó ekkert fullyrt um það að hve miklu leyti þessar ástæður skýra hátt hlutfall frystingar lána sjávarútvegsfyrirtækja.

Varðandi það hversu stór hluti þessara lána sjávarútvegsfyrirtækja er tryggður óbeint með veðum í aflaheimildum eða hver áhrif fyrning aflaheimilda hefði á verðmæti viðkomandi lánasafna og eiginfjárstöðu innlendra lánastofnana, er það að segja að ekki liggja fyrir upplýsingar í ráðuneytinu þar að lútandi á þessu stigi, enda er efnahags- og viðskiptaráðuneytinu ekki ætlað lögum samkvæmt að safna upplýsingum um eignir eða skuldir atvinnufyrirtækja eða einstaklinga.

Rétt er þó að benda á að þær hugmyndir sem settar hafa verið fram um fyrningu aflaheimilda gera allar ráð fyrir að hún gangi eftir á alllöngum tíma og hún hefur vitaskuld ekki áhrif á heildarafla á Íslandsmiðum og þar með heildartekjur greinarinnar. Hvort tveggja ætti að tryggja að fyrningin setur ekki stöðu þeirra sem lánað hafa til sjávarútvegsfyrirtækja í uppnám ef vel er að málum staðið.