Ferðasjóður Íþróttasambands Íslands

Miðvikudaginn 18. nóvember 2009, kl. 15:13:08 (0)


138. löggjafarþing — 28. fundur,  18. nóv. 2009.

ferðasjóður Íþróttasambands Íslands.

143. mál
[15:13]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir fyrirspurnina. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir alla íþróttahreyfinguna og alla þá sem stunda íþróttir því að á landsbyggðinni og í höfuðborginni eru börn og ungmenni að sækja keppnisferðalög og annað út um allt land. Þessi sjóður þarf því að vera til og hann þarf að styrkja og efla eins og mögulegt er.

Þessu tengt er í raun líka jöfnun námskostnaðar sem í fjárlagafrumvarpinu er skorin niður um 250 millj. kr., sem ég held að sé ekki síður mikilvægt að ríkisstjórnin íhugi vel að og helst að dragi slíkan niðurskurð alfarið til baka, því þessi jöfnun á námskostnaði hefur gert unglingum og ungmennum kleift að sækja nám um lengri veg. Það mun eingöngu koma niður á fjölskyldum landsins ef þetta verður skorið niður. Því hangir þetta svolítið saman, þessi styrkir til íþróttastarfs og náms.