Framtíðaruppbygging á Vestfjarðavegi í kjölfar dóms Hæstaréttar

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 11:32:54 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

framtíðaruppbygging á Vestfjarðavegi í kjölfar dóms Hæstaréttar.

[11:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta mál sem við erum að ræða er um margt mjög sérkennilegt fyrir þær sakir að þetta virðist hafa þvælst fyrir í íslenskri stjórnsýslu og dómskerfi. Ég vona að það sé ekki vísvitandi en það virðist sem mönnum og stofnunum sé einkar lagið að setja þetta mál upp í loft og það hefur verið gert í langan tíma.

Það sem er merkilegt í dag er að þegar Hæstiréttur kvað upp sinn dóm hafnaði hann í raun dómi héraðsdóms. Hann tók í rauninni ekki á því máli eða efni sem héraðsdómur dæmdi í heldur fann sér nýtt atriði sem var öryggismál og að fyrrverandi umhverfisráðherra hafi ekki verið heimilt að taka tillit til öryggissjónarmiða. Það hlýtur að vera mjög sérstakt að láta öryggissjónarmið víkja þegar við erum að tala um svona mikilvæga framkvæmd.

Í dag er mikilvægast að koma málinu áfram. Ég sakna þess svolítið úr ræðu hæstv. samgönguráðherra að ekki skuli koma fram hvernig hann hyggst koma þessu máli áfram og leiða það til lykta. Það þurfum við að vita. Hins vegar er augljóst að það er mjög mikilvægt að ná verklaginu í umhverfisráðuneytinu í lag þannig að ráðherra úrskurði eða klári þá vinnu sem þar liggur fyrir og átti að vera búin að mér skilst 28. júní. Nema gamla lagið sé að koma upp í því ágæta ráðuneyti, lenskan að setja stólinn fyrir dyrnar. Við þurfum ekki að leita langt suður á Suðurnes til þess að rifja upp það mál allt saman.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að koma hingað upp á eftir og segja okkur frá því hvernig hann ætli að klára þetta mál þannig að það sé til sóma fyrir þingið og til hagsbóta fyrir íbúana sem þarna búa.