Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 20:43:00 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í gangi er rannsókn, rannsóknarnefnd á vegum Alþingis sem er að rannsaka efnahagshrunið m.a. og mjög mikilvægt er að niðurstöðum hennar verði fylgt eftir og veit ég að Alþingi mun ekki draga neitt af sér í því. Ég tel hins vegar í ljósi þess hversu stórir og miklir hagsmunir eru í húfi í Icesave-málinu, einhverjir mestu hagsmunir sem við höfum staðið frammi fyrir, að það væri vel þess virði að við skoðuðum það, þingmenn, að skipuð yrði rannsóknarnefnd eða farið yrði í það að rannsaka hvernig haldið hefur verið á þessu máli. Hagsmunirnir eru það miklir og stórir að væntanlega er full ástæða til þess að farið verði yfir málið frá A til Ö. Ekki það að ég ætli að standa hér og segja að það eigi að sækja einhverja til saka fyrir það, hins vegar verðum við að læra af því. Það er alveg ljóst að ef hér hefur verið haldið illa á málum, ef stjórnvöld og þeir sem þessum málum stýra hafa ekki staðið sig í stykkinu gagnvart því að gæta hagsmuna þjóðarinnar þarf að draga það fram, því að málið er risavaxið og það varðar alla framtíð Íslands. Við getum ekki horft fram hjá því.

Ég hef stundum spurt mig að því, frú forseti: Hvað getum við gert ef við teljum að stjórnvöld séu að brjóta gegn hagsmunum þjóðarinnar? Hvað getum við gert? Hvað getur Alþingi gert? Það er í höndum þingmanna sjálfra, að mér virðist, að lýsa trausti eða vantrausti á ríkisstjórnina, en ég hefði gjarnan viljað hafa einhvern vettvang þar sem ég gæti sem þingmaður óskað eftir eða jafnvel farið þá leið að sækja ríkisstjórn þess vegna fyrir dómstóla til að kanna lögmæti hennar (Forseti hringir.) ráða.