Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 21:46:33 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst rök hv. þingmanns frekar léttvæg. En hvað um það, mig langar að spyrja hv. þingmann um annað. Hann kom vel inn á og fór vel yfir efnahagslega þáttinn í ræðu sinni áðan og fór yfir álit Seðlabanka Íslands sem er spá um framtíðina og hefur tekið ákveðnum breytingum milli funda. Þar benti hv. þingmaður réttilega á gengisáhættuna. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hefði ekki talið eðlilegra og skynsamlegra að fá Seðlabanka Íslands til að skoða það og kryfja ofan í merginn til að gera sér grein fyrir því hvað þar er á ferðinni vegna þess að þegar þeir kynntu á fundi fjárlaganefndar sömu niðurstöðu á útreikningum sínum og skýrslu og þeir gerðu fyrir efnahags- og skattanefnd sem hv. þingmaður situr í höfðu þeir í raun og veru enga hugmynd hvað þessi gengisáhætta þýddi og höfðu ekki gert sér grein fyrir því (Forseti hringir.) að það væri búið að þrýsta kröfunum yfir á 22. apríl.