Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 19. nóvember 2009, kl. 21:56:23 (0)


138. löggjafarþing — 29. fundur,  19. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:56]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þingmaðurinn spyr hvort viðsemjendur okkar hafi fallist á skilmálana. Ég tel að þeir hafi fallist á lykilatriðin í skilmálunum, já, ekki alla, nei. En ég skil eiginlega ekki hvort við teljum að í samningaviðræðum þjóða, eins og þetta klárlega er og ég ætla ekkert að víkjast undan því, þetta eru tvær þjóðir að semja um lyktir einhvers ákveðins máls, að önnur þjóðin geti bara farið fram með sína skilmála og sagt: Takið þetta allt saman eða ekkert. Það er bara ekki svoleiðis í samningum þegar menn mætast augliti til auglitis. Ég tel að við höfum náð lykilatriðum fram, já, lykilatriðum höfum við náð í gegn, öðru ekki.

Ég get hins vegar ekki lagt mat á skoðanir eða söguskýringar fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar, ég veit hins vegar alveg hvernig ég lít á þetta mál. Mitt álit er að menn eigi að standa við skuldbindingar sínar. Þetta er hluti af því. Ef við viljum vera þjóð meðal þjóða skulum við standa við skuldbindingar okkar og gera upp þetta mál.