Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 20:15:05 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að menn skuli vera búnir að undirbúa ræðu mína svona mikið [Hlátur í þingsal.] og ég get bara sagt ekkert síður en hæstv. forsætisráðherra að minn tími sé kominn í ræðustóli.

Hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir nefndi í umræðunni einhvern tíma skákborð. Hún er skáksnillingur, sem ég er ekki, og hún sagði að menn væru að tefla skák, það væri byrjunartafl, miðtafl og endatafl. Ég þekki þau hugtök nokkurn veginn. Svo eru líka til þvingaðir leikir og skákþrautir ganga yfirleitt út á það að vera með þvingaða leiki, þ.e. að menn geti ekki leikið nema ákveðna röð af leikjum. Mér sýnist hæstv. ríkisstjórn alla tíð vera að vinna með þvinguðu leikina. Hún setur alltaf upp stöðu sem eru þvingaðir leikir, það verður að gera eitthvað tiltekið, sækja um Evrópusambandið, annars gerist eitthvað slæmt. Það sem er alltaf á bak við það er það að hvíta drottningin er felld, eða fyrirgefið, hvíti kóngurinn er felldur, þ.e. taflið gengur alltaf út á að það er hótað að fella kónginn og þá er taflið tapað.

Ég bendi á það, frú forseti, að eftir því sem þeir sem leika miðtaflið eða endataflið vísa oftar í byrjunartaflið og þá sem léku þá, þeim mun verri eru þeir í taflinu. Eftir því sem þarf að vísa meira í það að Sjálfstæðisflokkurinn — því að hann var víst einn í stjórn þarna — hafi gert þetta og hitt og eigi sök á þessu öllu saman, þeim mun verr standa þeir sig í því að leika miðtaflið og endataflið. Ég vil benda á þetta bara til að menn átti sig á því.

Svo gerist það stundum að staðan raknar upp. Allt í einu kemur einhver snjall skákmaður, gæti verið hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, sem því miður er ekki á þingi núna, og sér einhverja lausn þannig að það er ekki lengur þvingaður leikur. Þá koma góðir skákmenn, grípa tækifærið og vinna skákina. Mér finnst einhvern veginn núna eins og sá tímapunktur sé kominn, það er til lausn.

Allt þetta dæmi hefur litast heilmikið af kúgun. Það er verið að kúga endalaust fram og til baka, margir eru að kúga marga. Evrópusambandið er að kúga Íslendinga til þess að fela galla í tilskipun Evrópusambandsins. Það er að kúga okkur til að samþykkja eitthvað svo sparifjáreigendur um alla Evrópu komi ekki auga á gallana í kerfinu. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlaði að koma hjálpandi og frelsandi en svo allt í einu fór hann að hökta. Af hverju hökti hann? Af því að það átti að ná fram einhverri ákveðinni stöðu í Icesave-málinu. Við áttum sem sagt að samþykkja Icesave-málið, annars fengjum við ekki hjálp. Við áttum að vera svo örvæntingarfull að við mundum samþykkja hvað sem er. Og þannig var það, þannig hefur það verið.

Síðan koma þeir núna og segja: Nei, nei, nei, við meintum þetta ekki svona. Við tengdum þetta aldrei við neitt, nei, nei, nei, ekki við. Þá finnst mér að góðir skákmenn eigi að ganga á röðina og athuga: Bíddu, hver er eiginlega kúgarinn fyrst það er ekki þessi og ekki þessi og ekki hinn, hver er eiginlega kúgarinn?

Það kemur fram, eins og ég las áðan upp úr skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því í október, það er ekki lengra síðan, að norrænu ríkin eru að kúga okkur. Þeir segja að norrænu ríkin hafi bundið útgreiðslu lánanna sinna við það að Íslendingar samþykktu Icesave. Þetta segir í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. (Gripið fram í: Ha?) Það var strax farið til þeirra og Norðmenn gáfu þá yfirlýsingu: Nei, nei, nei, við ætlum að borga út, alveg óháð Icesave. Mér sýnist núna að komin sé upp sú staða að það er í rauninni enginn lengur að kúga neinn. Þá getum við bara sest niður sallaróleg og farið að semja á okkar forsendum en ekki á forsendum Breta og Hollendinga endalaust undir einhverjum þrýstingi, hætta að semja nauðungarsamninga, hæstv. fjármálaráðherra, hætta að láta kúga okkur, fara að standa í lappirnar og semja út frá okkar sjónarhorni.

Hver er forsaga þessa máls? Ég ætla rétt að fara út í það þó að það sé margbúið að reifa það. Bretar og Hollendingar ákváðu einhliða að láta skattgreiðendur borga Icesave. Hvers vegna gerðu þeir það? Vegna þess að þeir voru logandi hræddir á þeim tíma um að traust sparifjáreigenda í þeirra löndum mundi bresta. Ef Icesave færi á hausinn og enginn mundi borga mundu þeir sparifjáreigendur hrópa hátt og snjallt og aðrir sparifjáreigendur mundu rífa peningana sína úr bönkunum og það yrði áhlaup á alla bankana í þessum tveimur löndum. Ekki nóg með það, heldur mundi það sennilega fara bara eins og eldur í sinu um alla Evrópu. Þetta skýrir hörkuna í málinu, af hverju Íslendingar skyldu verða kúgaðir hvað sem það kostaði.

Þeir ákveða sem sagt að láta skattgreiðendur borga en að sjálfsögðu munu breskir og hollenskir skattgreiðendur aldrei borga þetta vegna þess að þeir, sérstaklega Bretar, hafa það sterkt bankakerfi að þeir munu velta þessu yfir á það með tíð og tíma. Þeir eru alltaf að hugsa til langs tíma, flestar þjóðir hugsa í 20, 30, 40, 50 árum — nema sú íslenska, hún hugsar í vikum, því miður, í mesta lagi mánuðum.

Íslenskir skattgreiðendur mundu hins vegar greiða þetta vegna þess að þetta er svo stór upphæð að íslenskt bankakerfi mun væntanlega aldrei geta greitt þetta, við getum gleymt því, þannig að við erum að tala um að einu skattgreiðendurnir í Evrópu sem munu borga fyrir hrun bankakerfis og galla í tilskipanaverki Evrópusambandsins eru íslenskir skattgreiðendur. Út á það gengur þessi samningur sem við erum að ræða hér í dag.

Samningnum verður breytt heilmikið sem er dálítið merkilegt því að í gildi eru lög nr. 96/2009 og það er eins og menn hafi ekki lesið þau lög almennilega. Ég ætla að leyfa mér að lesa upphaf 2. mgr. 1. gr., frú forseti:

„Það er skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá.“

Er þetta ekki afskaplega skýrt? Ég er ekki lögfræðingur en ég get ekki séð neina einustu undankomuleið frá þessu ákvæði. Það á sem sagt að kynna þetta fyrir breskum og hollenskum stjórnvöldum og þau eiga að segja: Já, við föllumst á þetta, eða þau segja væntanlega: Nei, við föllumst ekki á þetta. Ef þau segja nei eru bara lögin ekkert lengur í gildi, þá er engin ríkisábyrgð. En þangað til þau segja nei er þessi möguleiki til staðar og hann er til staðar í dag, frú forseti, vegna þess að mér er ekki kunnugt um að bresk eða hollensk stjórnvöld hafi tilkynnt að þau fallist ekki á fyrirvarana. Þess vegna eru þessi lög í gildi í dag og Bretar og Hollendingar gætu fyrir hádegi á morgun tilkynnt íslenskum stjórnvöldum: Við föllumst á fyrirvarana, og ríkisábyrgðin tekur gildi.

Það er svo skrýtið, frú forseti, að við skulum vera að ræða hérna einhverja breytingu á þessu. Það eru í gildi lög frá Alþingi um eitthvað allt annað. Það átti ekkert að semja. Gallinn við þessa lagasetningu er kannski sá að það hefði átt að vera ákveðið sólarlag á lögunum, það átti að segja að þeir skyldu tilkynna þetta fyrir 1. október eða 20. október, eitthvað svoleiðis. Þá hefði verið alveg skýrt hvort þau féllust á fyrirvarana eða ekki.

Af einhverjum dularfullum ástæðum fóru íslensk stjórnvöld að semja við bresk stjórnvöld án þess að neitt hafi gerst. Það kom meira að segja „non-letter“, „one shot“ eða hvernig þetta var, ég man það ekki. Non-letter þýðir ekki-bréf og „one shot“ var það, skotið einu sinni, þetta er eins og í leynilögreglusögum. Það kom einhver tilkynning sem ekki var tilkynning og eitthvert bréf sem ekki var bréf og það var bara sagt einu sinni og aldrei meir. Mjög dularfullt. Þeir hafa sem sagt ekki enn þá sent neitt bréf því að þetta var ekki bréf, þetta var non-letter. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Non-letter.) Þetta var non-letter.

Breyttur samningur sem við ræðum nú — merkilegt nokk, það er búið að semja upp á nýtt þrátt fyrir þetta lagaákvæði — gengur út á það að ákveðin skilyrði eru flutt úr íslenskum lögum, íslensku dómsumhverfi, yfir í bresk lög. Ég er margbúinn að ítreka aftur og aftur að við Íslendingar megum ekki samþykkja svona lagað án þess að að því komi einhverjir miklir sérfræðingar í breskum lögum. Ég hef lítið vit á íslenskum lögum og enn síður hef ég vit á breskum lögum eða dómaframkvæmd í Bretlandi sem getur byggt á hundrað ára reynslu og dómafyrirmyndum, 200 ára þess vegna eða 300 ára, ég veit það ekki. Þarna þyrftu að koma til einhverjir mjög miklir sérfræðingar til að hjálpa nefndum Alþingis til að taka ákvörðun í þessu máli, ganga úr skugga um hvort þær séu að gera einhver mistök. Það er búið að flytja sem sagt ákveðinn kafla úr íslenskum lögum yfir í bresk lög, einmitt efnahagslegu fyrirvarana.

Það sem er mest um vert er að það á alltaf að greiða vexti, alveg sama hvað gerist á Íslandi. Þar með eru farnir þeir fyrirvarar, sú trygging sem Alþingi gerði fyrir íslenska þjóð. Það er svo sem margoft búið að ræða þetta þannig að ég ætla ekki að fara nánar út í það. En það sem gerist líka er það að lánið er orðið endalaust, eða getur orðið endalaust, ef við náum ekki að borga nema vextina — því að við neyðumst til að borga þá, alveg sama hvað við þurfum að klóra undan nöglunum — og við borgum aldrei niður höfuðstólinn. Hann framlengist og framlengist og getur verið 50 ár, 60 ár, 100 ár. Þá fer að skipta máli nokkuð sem ekki var rætt mikið í sumar, raunvextir, raunvextir í pundum og evrum. Ég ætla að ræða á eftir um raunvextina.

Nú hafa komið fram nýjar upplýsingar, t.d. með það að breska stjórnin og hollenska stjórnin séu að mismuna innlánstryggingarsjóðum sínum og íslenska innlánstryggingarsjóðnum. Það er það sem kom núna varðandi vexti frá þessum ágæta manni, Daniel Gros, sem er fulltrúi Framsóknarflokksins í peningamarkaðsstefnu … (Gripið fram í: Nei, nei, nei, bankaráði Seðlabankans.) bankaráði Seðlabankans, já, þakka þér, það var rétt.

Svo er líka spurning hvort það sé ekki mismunun á milli banka á Íslandi. Sumir bankar fá ríkisábyrgð á innlánunum en aðrir ekki. Kaupþing fær ekki ríkisábyrgð á Edge-reikningana sína en Landsbankinn fær ríkisábyrgð á Icesave og ég gæti vel ímyndað mér að sá ágæti ESA-dómstóll kæmist að þeirri niðurstöðu að Íslendingar hefðu brotið jafnræðisreglu EES-samningsins.

Síðan koma bara í gær eða fyrradag mjög misvísandi upplýsingar um stöðu Landsbankans. Hann stendur illa, en stendur samt vel. Það er vegna þess að gengið er að hækka, en ekki vegna þess að gengið hækkaði. Ég skildi eiginlega ekki niðurstöðuna og ég mundi gjarnan, frú forseti, vilja fá að kalla til gesti og fá útskýringu á því hvað er eiginlega að gerast í Landsbankanum, eitthvað sem við berum ábyrgð á og eigum að fara að bera ábyrgð á. Nú get ég ekki kallað þessa ágætu menn inn í þingsal því að það er ekki hefð fyrir því að gestir séu kallaðir hér fyrir. Það er nefnilega gert í nefndum þingsins og þær brugðust því að ræða við gesti og ræða málin út í hörgul. Það þyrfti sem sagt nauðsynlega að kalla þá fyrir núna.

Ég hef líka nefnt þessa krónutölukröfu, að það er búið að negla kröfurnar niður í krónum miðað við 22. apríl sl. sem þýðir að eftir því sem gengið fellur, af því að eignir Landsbankans eru að mestu leyti í gengi, a.m.k. 80–85% eru í erlendri mynt, hækka eignir Landsbankans í krónum og hann getur alltaf betur og betur borgað þessa krónutölu sem er forgangskröfur. Hann var nærri búinn að ná 93% um daginn og svo datt það aftur niður í 86% vegna þess að hann tapaði annars staðar í erlendri mynt. Gengisfelling upp á 5–6% í viðbót þýðir að hann fer að borga 100% í Icesave-kröfunni. Og hvað gerist þá, frú forseti? Þá fer hann að borga almennar kröfur sem eru eitthvað um 3.000 milljarðar, eitthvað svoleiðis, ógurlegur sjór af kröfum. Hann þarf að borga þar 1, 2 eða 3%. Þetta var nefnt allt saman í þeirri ágætu skýrslu frá 4. minni hluta efnahags- og skattanefndar sem var skilað til fjárlaganefndar en aldrei lesin og ég ætla að fara í gegnum hér á eftir.

Svo eru líka neyðarlögin. Menn hafa rætt um að þau gætu fallið. Mér var lengi vel ráðlagt að nefna það ekki af því að ekki mætti nefna á Alþingi að lög frá Alþingi gætu verið dæmd ógild, en menn verða stundum að horfast í augu við raunveruleikann. Þetta getur gerst þó að það séu kannski ekki miklar líkur á því og eiginlega mjög litlar. Þá þarf maður að vera undir það búinn, frú forseti, við getum ekki staðið eins og þvara í því tilfelli, sem eru litlar líkur á að gerist, að neyðarlögin verði felld. Við verðum að standa þá líka með eitthvert plan, getum ekki bara sagt: Æ, ég reiknaði nú ekki með þessu. Það er líka margt í þessu máli öllu saman sem er einmitt „æ, ég reiknaði ekki með þessu“ og getur komið upp.

Það var dálítið merkilegt viðhorf hjá meiri hlutanum, þessum klofna meiri hluta í hv. efnahags- og skattanefnd, þegar þeir sögðu að þessu yrði skilað til fjárlaganefndar og það fengi þá umræðu þar eða í þinginu. Síðan var allt tekið út úr fjárlaganefnd með þeim rökstuðningi að það væri best að þingið ræddi þetta, það var rökstuðningurinn, og öll nefndarálitin fylgdu með, og menn gætu þá bara leyst þetta í góðu tómi og rætt á þinginu. Svo mæta stjórnarliðar ekki í þingið til þess að ræða þetta þannig að þetta er eiginlega bara farsi. Menn eru ekkert að sinna vinnunni sinni, að fara í gegnum kosti og galla.

Ég ætla að ræða fylgiskjölin með nefndaráliti frá meiri hluta fjárlaganefndar. Þar kemur fyrir á síðu 15:

„Í þjóðhagsspá Seðlabankans er gert ráð fyrir að raungengi íslensku krónunnar verði mjög lágt á næstu árum sem leiði til verulegs afgangs af vöru- og þjónustuviðskiptum.“

Sem sagt alveg ljómandi gott, frú forseti, hagfræðilega ljómandi gott. En aumingja fólkið, vita menn hvað þetta þýðir? Raungengi á að vera lágt til frambúðar, sem þýðir að íslensk laun verða hræðilega lág í samanburði við laun erlendis og íslenskt fólk getur ekki keypt eins og það hefur keypt hingað til. Þetta þýðir það. Innflutningur mun dragast saman vegna þess að menn geta ekki keypt neitt. Hvað þýðir það á íslensku? Það hét einu sinni á íslensku fátækt, að geta ekki keypt hluti, ekki bíla, ekki sjónvörp, ekki ferðalög eða nokkurn skapaðan hlut. Það er mikil hætta á því að fólksflótti bresti á þegar svoleiðis staða kemur upp, sérstaklega hjá þeim sem hafa möguleika á því að fara til útlanda og fá laun í evrum, dollurum, pundum eða eitthvað slíkt sem er miklu hærra en býðst hér.

Síðan er nefndarálit 4. minni hluta sem ég skrifaði undir og aldrei var lesið neins staðar. Ég ætla að lesa upp úr því af því að það hefur hvergi komið fram. Í fyrsta lagi, með leyfi frú forseta:

„Stuttu eftir að ríkisbankarnir voru einkavæddir óx framboð á ódýru fjármagni á alþjóðamörkuðum mjög. Rekja má þetta aukna framboð til mikils sparnaðar í nýmarkaðsríkjunum, sérstaklega Kína, Rússlandi og Miðausturlöndum. Jafnframt urðu fjárfestar almennt áhættusæknari en áhættusækni helst oftast í hendur við mikið framboð á ódýru fjármagni. Í þessu umhverfi uxu íslensku bankarnir þrír með ógnarhraða, skiluðu miklum hagnaði og fengu fljótlega hæsta lánshæfismat hjá alþjóðlegum matsfyrirtækjum. Íslenska ríkið fékk á sama hátt hæstu einkunn enda nánast skuldlaust, skattar hóflegir og útlitið bjart. Þetta háa mat á ríki og bönkum gerði bönkunum kleift að taka að láni gríðarlega fjármuni í hlutfalli við landsframleiðslu Íslands eða um 40 millj. kr. á hvern íbúa. Á sama tíma olli peningastefna Seðlabanka Íslands miklu innstreymi erlends gjaldeyris, sem styrkti gengi krónunnar, hvatti til neyslu og olli þenslu, þetta voru svokölluð jöklabréf.“

Síðan kemur dálítið merkileg hugleiðing:

„Með örfáum undantekningum virtust lánveitendur bankanna, stjórnendur þeirra, endurskoðendur, hagfræðingar, matsfyrirtæki, fjármálaeftirlit, löggjafinn, stjórnmálamenn og fjölmiðlar ekki hafa haft miklar áhyggjur af þessum mikla vexti fyrr en í byrjun árs 2006 þegar efasemdaraddir hófu að heyrast um hið íslenska „bankamódel“. Þetta mikla lánsfé var notað til útlána til skuldsettra yfirtaka og kaupa á fyrirtækjum um alla Evrópu og snertu íslenskt atvinnulíf lítið sem ekkert að því er virðist. Það á einnig við um fé sem lagt var inn á Icesave-reikninga Landsbankans og hefur sennilega aldrei runnið til fjárfestinga á Íslandi.“

Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur að allt þetta ævintýri snerti íslenskt atvinnulíf ekki neitt. Þeir sem tala um að íslensk verkakona á Raufarhöfn beri einhverja siðferðilega ábyrgð á þessu ævintýri ættu virkilega að fara að hugsa sinn gang. Þetta voru lán útlendinga í gegnum íslenska banka til útlendinga eða til kaupa á erlendum fyrirtækjum.

Síðan stendur hér:

„Það ætti að vera rannsóknarinnar virði að kortleggja þessa fjármagnsstrauma sem og fjármagnsstrauma vegna fyrrgreindra jöklabréfa, sem virðast hafa runnið til innlendrar neyslu.“

Það er nokkuð sem við verðum að greiða og hefur ekki annað staðið til.

„Krosseignarhald á milli fyrirtækja, raðeignarhald og lánveitingar til stærstu eigenda og starfsmanna mögnuðu upp áhættu og ójafnvægi í fjármálakerfinu, gerði það óstöðugt og viðkvæmt fyrir áföllum.“

Þetta eru sem sagt rök úr þessu 4. minnihlutaáliti fyrir því að Icesave-reikningarnir og öll þessi gífurlega skuldsetning íslenskra einkabanka hafi eiginlega ekkert komið íslensku atvinnulífi við. Það er a.m.k. skoðun þeirra sem skrifuðu undir þetta nefndarálit.

Síðan er farið í gegnum það að þrátt fyrir tilskipun Evrópusambandsins sem gerði ráð fyrir því að innlánsstofnanir stæðu alfarið straum af kostnaði við innlánstryggingarkerfið sáu bresk og hollensk stjórnvöld sig tilknúin að taka einhliða ákvörðun um að skattgreiðendur landanna greiddu það sem á vantaði inn í Icesave. Ég er búinn að fara í gegnum það.

Það sem skiptir núna miklu máli er að lánið hefur breyst úr því að vera endanlegt í óendanlegt því að ríkisábyrgðin átti að renna út árið 2024, 5. júní, og þá átti að semja. En þá vorum við í þeirri stöðu að við þurftum ekki að samþykkja eitt eða neitt og þá hefðum við getað vísað á það að hér var enginn hagvöxtur eða eitthvað annað hefði farið úrskeiðis. Þetta gætum við ekki greitt og ætluðum ekki að greiða eða neyðarlögin héldu ekki eða eitthvað annað. Þá hefðum við nefnilega getað vísað í áföll sem þjóðin hefði orðið fyrir og hefðum ekki þurft að samþykkja neitt. Með allri sanngirni, því að þessir fyrirvarar Alþingis í sumar voru afskaplega sanngjarnir, hefðu menn þurft að fallast á það að þessi lán ættu að falla niður.

Þá var heldur ekki rætt mikið um vexti, af hverju ekki? Menn horfðu á útgreiðslurnar, það sem þjóðin gæti borgað, og ef hún gæti ekki borgað mundi hún ekki borga. Þess vegna skiptu vextirnir ekki eins gífurlegu máli og núna þegar lánið er í rauninni orðið endalaust. Þá fara vextirnir að skipta verulega miklu máli.

Það var talað um að þessir vextir væru svokallaðir CIRR-vextir, Commercial Interest Reference Rates. Þeir vextir eru hugsaðir þannig að ef ríkisstjórnir lána til einkafyrirtækja, frú forseti, mega þær ekki lána undir þessum vöxtum, annars er það samkeppnisskekking gagnvart öðrum fyrirtækjum sem eru í samkeppni við þessi útflutningsfyrirtæki. Íslenska samninganefndin ákvað að samþykkja þessa vexti með 125 punkta álagi. Það er alveg með ólíkindum en, frú forseti, ég skil af hverju. Einhverjir í nefndinni, kannski flestir, héldu að það væri engin ríkisábyrgð fyrr en 2016, það væri bara ábyrgð innlánstryggingarsjóðs á þessu og Landsbankans þangað til og kæmi ríkissjóði ekkert við fyrr en hann kemur allt í einu inn í 2016 og þá kemur ríkisábyrgðin inn, þannig að þetta væri í rauninni lán breskra og hollenskra stjórnvalda til einkafyrirtækja og innlánstryggingarsjóðs. En þeir gleymdu einu: Ríkissjóður ábyrgðist stöðuna sem er árið 2016 þannig að ef það tapast 100 millj. kr. núna í janúar er staðan 100 millj. kr. lægri 2016 plús vextir þannig að það er í rauninni ríkisábyrgð allan tímann, frú forseti. Þess vegna er fráleitt að nota CIRR-vexti í þessu sambandi. Ef maður ætlar að kaupa hús í London, ég hef skoðað það, ég fór inn á þannig vef um daginn, getur maður tekið lán með föstum vöxtum, reyndar ekki nema til fimm ára, en engir af þeim eru yfir 5%. Íbúðakaupendur í Bretlandi borga lægri vexti en hæstv. fjármálaráðherra — sem gengur í salinn — fyrir Icesave með ríkisábyrgð íslenska ríkisins. Það sýnir hvað þessir vextir eru fráleitir.

Það er sem sagt misskilningur hjá samninganefndinni sem hélt að þetta væri bara á ábyrgð innlánstryggingarsjóðs fram til 2016 sem veldur því að menn samþykkja þessa ofurvexti.

Bresk og hollensk stjórnvöld, ég kíkti líka á það hjá Bloomberg, borga núna 3,8% vexti ofan á ríkisskuldabréf til 15–20 ára sem þau taka sjálf. Þegar þau veittu þetta lán gátu þau fjármagnað sig öðrum megin með 3,8% vöxtum og lánað okkur með 5,55% vöxtum. Ef þetta er einhver gæska, frú forseti, misskil ég það orð. Þetta er bara gróðafíkn, þau ætla bara að græða á okkur (Gripið fram í: Heyr, heyr.) og láta okkur borga hinn hlutann líka sem þau neyddust til að yfirtaka sjálf af Icesave. Þeim eða þeirra innnlánstryggingarsjóðum þykir það eflaust mjög hart.

Þannig er mál með vexti að ríkisstjórnir hafa engar áhyggjur af því hvort lán eru til 20 ára eða 50 ára eða 10 ára. Aðalatriðið er tvennt, lánið þarf að greiðast og raunvextirnir skipta máli, frú forseti. Það er það sem gildir, hjá öllum sem eiga peninga skipta raunvextirnir öllu máli. Raunvextir eru mjög háðir verðbólgu. Ef verðbólga í Bretlandi verður blessunarlega há, kannski 10, 15, 20% á næsta áratug erum við Íslendingar heppnir, þá étur verðbólgan upp þetta lán í pundum. Til þess að glöggva mig á því fór ég inn á netið og kíkti á verðbólgu í Bretlandi frá 1910. Hún er búin að vera mjög mismunandi. Hún hefur stundum verið yfir 20%, t.d. 1917 25,2%. Frá 1921–1934, í sem sagt 14 ár, var verðhjöðnun í Bretlandi. Þá hefðum við ekki verið að tala um 5,55% vexti heldur 6, 7 eða 8% raunvexti. (TÞH: Á móti þeim … svipað og …) Einmitt, þakka þér fyrir, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson.

Á áratugnum 1969–1982, sem eru 14 ár líka, verður geysileg verðbólga í Bretlandi. Það er 8, 9, 17, 24, 16% verðbólga á hverju ári. Við værum heppin, frú forseti, ef við lentum í svoleiðis tímabili í breskri hagsögu. Við getum bæði verið heppin og óheppin. Það skyldi þó ekki vera, frú forseti, að þessi samningur væri allur fullur af svona áhættu. Verður verðbólga í Bretlandi, verður verðhjöðnun í Bretlandi? Á íslenskur almenningur að líða fyrir það og taka einhverja gífurlega áhættu eða græða á því?

Frá 1992–1998 hefur verðbólgan verið 2–3%, 3,4% mest. Hún var reyndar dálítið mikil 2006, 2007 og 2008 en er núna lækkandi. Nú er verðbólgan sem sagt lækkandi og stefnir í 1%. Þetta er annað lánið.

Hitt lánið er evrulánið. Evran er búin að standa í níu eða tíu ár og ég kíkti líka á verðbólguna þar, hún er búin að vera 1–2% allan tímann þannig að það lán gæfi mjög þokkalega raunvexti.

Samband raunvaxta og langtímaávöxtunar er dálítið flókið fyrirbæri en vex með svokölluðu visa-falli, þ.e. vex afskaplega hratt. Ef við tölum um 30 ára lán með 1% vöxtum bætast 35% við en ef það er með 2% vöxtum bætist 81% við. Það munar svo mikið um hvert prósentustig. Ef það eru 3% vextir erum við farin að tala um 142% ábót. Þetta vex sem sagt mjög hratt þegar við erum að tala um svona langtímalán og við erum hugsanlega að tala um langtímalán, frú forseti. Þetta er hættulegt. Það er það sem hægt er að segja um þetta mál.

Ég reyndi að skoða það furðulega fyrirbæri sem bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra hafa misskilið með krónutölufrystingu krafna í Landsbankanum. Ekkert einfalt mál. Eins og ég gat um áðan er búið að frysta allar kröfur í krónutölu miðað við 22. apríl, þ.e. hlutfall á milli þeirra. Allar forgangskröfur, og reyndar allar kröfur, en forgangskröfurnar ná ekki alveg því að ná allri eigninni þannig að aðrar kröfur falla niður. Ef krónan fellur — hún er búin að falla um á að giska 8% síðan 22. apríl — hækka eignir Landsbankans um það sem samsvarar falli krónunnar eða eitthvað nálægt því, það er líka ávöxtun innan lands, og Landsbankinn getur borgað allt í einu 90–93% af þessum Icesave-kröfum. Og það virðist allt ganga vel en hinum megin, hjá innlánstryggingarsjóði, fær hann 93% af einhverri krónutölu sem var fest niður 22. apríl en hann skuldar gengistryggt í evrum og pundum með þessum líka safaríku vöxtum. Ég reiknaði út mjög lauslega að þetta var á að giska 80 milljarða kr. aukning frá því í apríl og þar til ég reiknaði þetta út fyrir tveim vikum sem segir mér að þarna geta veður skipast mjög hratt í lofti. Það þarf ekki nema 6–7% gengisfall í viðbót og Landsbankinn er farinn að borga 100% upp í Icesave-kröfuna og farinn að borga almennar kröfur líka.

Í þessu nefndaráliti 4. minni hluta var reynt að slá á þetta. Tafla á síðu 33 í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar fylgir sem fylgirit. Niðurstaðan er að ef gengisvísitalan færi í 150, þ.e. ef gengið mundi styrkjast um 53%, væri innlánstryggingarsjóður með nettó 240 milljarða kr. í skuld. Ef engin gengisfelling verður frá því sem er núna, 230 stig, væri það 370 milljarða kr. skuld. Ef gengið fellur hins vegar um 30% í viðbót þar til hann getur farið að gera upp — það er eiginlega það sem Seðlabankinn er að segja, raunlaunin verða lág þannig að raungengið verður lágt þannig að hann reiknar með því að gengið hækki ekki, falli jafnvel á 4–5 árum þangað til hægt er að fara að gera upp — gengisvísitalan verður 330, eru 746 milljarðar kr. í mínus út úr þessu dæmi — að því gefnu að Landsbankinn geti innheimt nákvæmlega jafnmikið af eignum sínum. Þá fá nefnilega almennir kröfuhafar hjá Landsbankanum 13% upp í sínar kröfur. Þá er farið að borga bara úti um allan heim af þessum eignum. Þetta er orðið afskaplega háð gengi krónunnar, hættulega háð gengi krónunnar, frú forseti.

Síðan tókum við líka fyrir hvað gerist ef neyðarlögin halda ekki, þ.e. ef allar kröfur verða jafnsettar, forgangskröfur sem aðrar. Innlánin voru einmitt gerð að forgangskröfum með neyðarlögunum og ef það heldur ekki getur Landsbankinn borgað 31% af kröfum og skuldbinding sem við erum að taka ábyrgð á færi upp í 870 milljarða kr. Þá er hætt við að einhvers staðar verði erfitt að ná endum saman í fjárlagagerð. Öll þessi umræða sýnir að við erum ekkert að minnka áhættuna í þessu dæmi.

Svo hafa menn talað um þetta ágæta sjö ára skjól, það er svo mikil indæl íslensk skammtímahugsun í þessu að það er alveg með ólíkindum. Það breytir engu hvort ég þarf að borga skuldina af húsinu mínu eftir átta ár, hún er alveg jafnmikil fyrir því. Ef hún er verðtryggð og ef hún heldur verðgildi sínu er hún alveg jafnmikil. Ef menn borga vexti sem eru hærri en verðbólga í viðkomandi mynt er það bara til óhagræðis þannig að það er engum greiði gerður með því að fresta skuldinni.

Við getum lent í ýmsum áföllum. Við getum t.d. lent í fiskileysi, við getum lent í jarðskjálftum og eldgosum. Við getum lent í að neyðarlögin haldi ekki, við getum lent í því að það verði verðhjöðnun í Bretlandi, við getum lent í ýmsum svona áföllum. Allt þetta var tryggt, frú forseti, með fyrirvörunum í sumar, þeim sanngjörnu fyrirvörum sem við áttum að kynna fyrir Bretum og Hollendingum sem sérstaklega sanngjarna. En það virðist ekki hafa verið gert.

Nú gerist það, frú forseti, að hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, kemur fram á völlinn, ritvöllinn eða fjölmiðlavöllinn, og segir að Íslendingar hafi ætíð samið eins og sakamenn. Og þetta var svona, frú forseti. Þvingunin var þannig að við komum til Brussel, eða hvar sem við komum, með slæma samvisku sem við áttum í sjálfu sér ekkert að hafa. Það vorum ekki við sem bjuggum til þessar reglur í Evrópusambandinu um innlánstryggingar. En hún segir, fyrrverandi hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að við höfum samið eins og sakamenn. Ef það er svo ætti virkilega að fara að klingja bjöllum hjá t.d. hv. þingmönnum Samfylkingarinnar. Af hverju er hún að segja þetta? Af hverju kemur hún núna fram með þessa yfirlýsingu, hvers vegna skyldi það vera? Það skyldi ekki vera, frú forseti, að hún sé farin að verða uggandi yfir þessu máli, að hún sé bara hreinlega farin að verða hrædd um að eitthvað mjög slæmt geti hent þjóðina hennar? Þetta ættu hv. þingmenn Samfylkingarinnar, af því að þeir hafa nú lítið blandað sér í umræðuna, virkilega að fara að hugleiða, hvort eitthvað slíkt geti verið.

Í títtnefndu nefndaráliti frá 4. minni hluta efnahags- og skattanefndar til fjárlaganefndar, sem aldrei var lesið, er gerð tillaga um breytingar. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarliða að hugleiða vel hvort ekki sé núna hægt þegar ekkert liggur lengur á þessu máli — Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sagt að hann muni vinna samkvæmt plani. Hann er ekkert að tengja þetta við Icesave, nei, nei, nei, hann hefur aldrei gert það, aldrei nokkurn tíma gert það. Við vitum náttúrlega að það er ekki þannig, en allt í lagi, hann segir þetta. Norðmenn eru búnir að segja: Við afhendum ykkur lánið án skilyrða. Það er bara fínt. Mér sýnist að þetta sé allt saman komið í góðan gír og við getum haldið okkar takti hérna, samþykkt fjárlögin, farið í gegnum allt saman og sleppt þessu máli í smátíma, frestað því í einhvern tíma og unnið að því að t.d. raunvextir af þessum lánum Breta og Hollendinga verði aldrei hærri en hálft prósent. Það finnst mér afskaplega sanngjarnt. Við segjum við Breta og Hollendinga: Já, já, við skulum borga hverja einustu evru og hvert einasta pund með raunvöxtum. Bretar vita nákvæmlega hvað það er, þeir eru búnir að hafa verðtryggð lán í fjölda ára og vita nákvæmlega hvað raunvextir eru. Þeir verða sennilega hoppandi glaðir ef við treystum okkur til þess því að þeir eru eflaust hræddir við það núna að það myndist mikil verðbólga í Bretlandi. Ef það myndast mikil verðbólga erum við að borga verðminni pund til baka og þá er allt í lagi að borga verðlaus pund með 0,5% raunvöxtum.

Ef það yrði hins vegar verðhjöðnun erum við vel sett með það að vera með 0,5% raunvexti, og Bretarnir líka. Þeir fá þá jafnmörg tonn af fiski afhent fyrir þetta lán með 0,5% raunvöxtum. Þetta er nokkuð sem mér finnst að hæstv. ríkisstjórn eigi að vinna að núna og gefa þessu máli pínulítinn frið. Það liggur ekkert á þessu lengur, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mallar bara og allt það prógramm og nú getum við farið að vinda okkur í að samþykkja fjárlögin, fara í gegnum þann pakka allan saman. Ég er svo sem ekkert voðalega hrifinn af þeim ráðstöfunum sem menn eru að gera en við skulum öll standa að því að vinna að fjárlögunum og vinna vel að þessu. Frestum þessu fram á vor.