Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Þriðjudaginn 24. nóvember 2009, kl. 22:53:36 (0)


138. löggjafarþing — 30. fundur,  24. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur bæði fyrirspurnina en ekki síður mannlýsinguna á mér. Það er alveg rétt, ég tem mér yfirleitt að vera frekar prúður og stilltur en get reyndar bæði orðið nokkuð reiður og æstur ef mér finnst of langt gengið. Það er satt best að segja kannski komið að þeim tímapunkti í þessu máli þar sem við höfum verið að ákalla skoðanir hæstv. forsætisráðherra í allan dag, kalla eftir að fá hæstv. ráðherra í pontu til þess að úttala sig um hvað henni finnst um þessi mál.

Ég kom aðeins inn á það í ræðu minni að ég upplifi hvaða vanþekkingu þingmenn á öðrum þjóðþingum hafa á málinu. Ég tel það m.a. vera vegna þess að hæstv. forsætisráðherra hefur ekki beitt sér með formlegum hætti á alþjóðavettvangi. Það má svo sem segja að (Forseti hringir.) það sem við upplifum hér í dag sé það sama og allar aðrar (Forseti hringir.) þjóðir hafa séð til íslenska forsætisráðherrans upp á síðkastið, þ.e. ekki neitt.