Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 15:13:13 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessi svör. Sá hópur sem heitir Indefence-hópurinn hefur barist mjög ötullega í þessu máli til þess að verja hagsmuni þjóðar og fólksins í landinu í þessu og hefur varað mjög við þeim hættum sem felast í þessum samningi og hefur gert það alveg frá upphafi málsins, alveg sama hvort það var þessi ríkisstjórn eða hin ríkisstjórnin á undan, hópurinn hefur alltaf verið að verja hagsmuni lands og þjóðar. Hópurinn byrjaði reyndar á því þegar Bretar settu hryðjuverkalögin á okkur, þá fór hópurinn á erlenda grundu og gekk þar fremstur meðal jafningja um að reyna að verja okkur Íslendinga.

Það kom fram ósk um það í efnahags- og skattanefnd að Indefence-hópurinn eða fulltrúar hans mundu koma á fund nefndarinnar til þess að ræða þessar breytingar og skoðanir þeirra á þeim breytingum á fyrirvörunum sem nú er verið að leggja fram í frumvarpinu. En viðbrögð stjórnvalda eftir alla þá sjálfboðavinnu sem þessir einstaklingar (Forseti hringir.) hafa unnið, sem skipta tugum milljóna ef ríkið hefði þurft að greiða fyrir hana, voru að neita því. Hvað finnst hv. þingmanni um slík vinnubrögð?