Skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 20:04:57 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

fundarstjórn.

[20:04]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er sjálfsagt að upplýsa um það að hin tvö skattamálin sem kallað var eftir áðan hvenær kæmu, hafa verið afgreidd út úr þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna og þau koma til þingsins í kvöld eða í fyrramálið þegar þau eru tilbúin til dreifingar. Þannig að ekki stendur á því. Í annan stað er það mjög undarleg nálgun hjá hv. þingmönnum, sem leggja það þannig upp, að þeir taki þingið í gíslingu málþófs og haldi því svo fram að stjórnarmeirihlutinn sé að halda því til haga að brýn mál komist ekki á út af málþófi þeirra, að þá vilji þeir fresta málþófinu í einhverja daga, taka önnur mál og halda svo málþófinu áfram, af því þetta mál er gífurlega mikilvægt. (PHB: ... málið.) Að sjálfsögðu, enda hefur þingmaðurinn öll tækifæri til þess.

En að sjálfsögðu þarf að ljúka þessu máli og engin efni sem standa til þess að fresta því til að taka fyrir önnur mál bara af því stjórnarandstaðan hefur kosið að beita því pólitíska handafli að taka málið (Forseti hringir.) og þingið í gíslingu málþófs. (BirgJ: Er það ekki handafl að láta okkur vinna hérna í alla nótt?)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður um hljóð í salnum.)