Skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 20:14:52 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:14]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til að vekja athygli á einu sem er mikilvægt að hafa í huga þegar við ræðum um dagskrá þingsins og þingsköpin og hvernig þau eru nýtt til að tryggja lýðræðislega umræðu um þetta þingmál.

Áður fyrr gátu menn stigið hér upp í ræðustól og talað ótakmarkað. (Gripið fram í.) Engin mörk voru á því. Hæstv. núverandi forsætisráðherra á ræðumetið samkvæmt gömlu þingsköpunum. Og hæstv. núverandi fjármálaráðherra setti met á hverju þinginu á fætur öðru, bæði í fjölda ræðna og lengd. Síðan var þingsköpunum breytt og því settur mjög afmarkaður rammi hversu lengi og oft ræðumenn geta talað. Við erum að framkvæma þingsköpin núna í þessari umræðu. Áður en þingmenn hafa nýtt sér rétt sinn samkvæmt þessum mjög svo takmörkuðu reglum miðað við það sem áður var, var farin hér af stað í þinginu umræða um að hér sé uppi málþóf og forseti, við þessar aðstæður, sér ástæðu til þess að setja á næturfundi. Þetta er auðvitað alvarlegur hlutur og alvarleg þróun á þinginu, eftir að við höfum takmarkað svo mjög ræðutíma þingmanna (Forseti hringir.) að við erum ekki einu sinni komin inn í seinni ræðu þingmanna þegar forseti þingsins er farin að setja á næturfund.