Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Fimmtudaginn 26. nóvember 2009, kl. 21:10:07 (0)


138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:10]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að taka upp hanskann fyrir allt það sem hefur komið frá Seðlabankanum á undanförnum árum og áratugum en leyfi mér náðarsamlegast að benda á að nú blása ferskir vindar um þá stofnun þannig að ég treysti þeim sem þar halda um stjórnvölinn ágætlega til þess að reiða fram tölur sem mark á takandi þótt vissulega séu þeir ekki óskeikulir frekar en aðrir. (Gripið fram í.)

Það má benda á að þeir félagar, Galbraith og Black, sem ég geri að umræðuefni, ræddu sérstaklega um og gerðu reyndar talsvert mikið úr hættunni á fólksflótta frá Íslandi. Nú er það auðvitað svo að það getur verið að einhverjir Íslendingar ákveði að axla sín skinn og hasla sér völl í Noregi eða einhvers staðar annars staðar, en að halda því fram að verulegar líkur séu á miklum fólksflótta þegar haft er í huga að lífskjör á Íslandi eru enn og verða áfram með þeim allra bestu í heiminum — við verðum líklega eins og við höfum verið undanfarna áratugi meðal þeirra þjóða sem eru kannski í topp 20 í heiminum yfir lífskjör (Gripið fram í.) á alla mælikvarða, að halda því fram að héðan verði mikill fólksflótti þótt (Forseti hringir.) smásamdráttur verði tímabundið er fjarstæðukennt.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill biðja þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð.)