Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 12:31:12 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:31]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætla að upplýsa þingheim um að ég hef hlustað á hverja einustu ræðu sem flutt hefur verið í þessu máli og þar á meðal ræðu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar áðan. Ég harma að tíma mínum hefur ekki verið mjög vel varið við að hlusta á fundarstjórn forseta eða alla umræðu sem hefur átt sér stað um það mál. Ef það er ósk hv. þingmanns og þingflokksformanns að við frestum fundi eftir hádegi þá er ég tilbúinn að gera það í fiskveiðistjórnarmálinu, þingið hefur að sjálfsögðu forgang. Þá óska ég líka eftir að Sjálfstæðisflokkurinn aflýsi sínum fundi sem er í dag. Það hlýtur að vera eðlileg krafa að miðstjórnarfundi verði aflýst þannig að menn geti verið við umræðuna.

Varðandi fjáraukalögin sem áttu að vera á dagskrá væri gaman að fá nefndarálitið frá Framsóknarflokknum. Það hefur ekki komið. Fulltrúi Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd er ekki á landinu og hefur ekki verið alla vikuna. Eftir hverju er hv. þingmaður að kalla? Ég held að menn verði aðeins að gæta sín. Það eru næg tækifæri til að fylgjast með umræðunni og fjármálaráðherra mun fjalla um öll þau atriði við 3. umr. eins og eðlilegt er.