Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Föstudaginn 27. nóvember 2009, kl. 16:00:30 (0)


138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Birgis Ármannssonar um að mjög gott væri að fá, eins og við höfum margoft kallað eftir, formann fjárlaganefndar eða kannski varaformann, þó að ekki sé hægt að krefjast þess að þeir taki þátt í umræðunni geta þeir alla vega hlustað á orðræðuna sem fer hér fram.

Síðan er annað sem ég mundi gjarnan vilja taka upp við frú forseta. Liggur eitthvað fyrir varðandi fundi næstu daga? Það væri mjög gott að fá að vita það því að það var hluti af stefnumörkun forseta Alþingis þegar hún tók við forsetastól að reyna að koma betra skikki á þennan vinnustað, þannig að ágætt væri að fá að skipuleggja sig varðandi barnapössun og annað ef ætlunin er að halda hér fundum áfram langt fram eftir nóttu eða á morgun eða hvernig þetta verður á næstunni.

Ég efast ekki um að sá forseti sem situr nú á forsetastól (Forseti hringir.) tekur undir þetta því að hún hefur verið mikil baráttukona fyrir jafnréttismálum og því að starfsumhverfi (Forseti hringir.) stjórnmálamanna verði fjölskylduvænna.