Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 12:15:35 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:15]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Svo einkennilegt sem það er nú — og mér þykir mjög vænt um félaga mína, framsóknarmenn, og hefur alla tíð þótt — er það nú oft svo að það misskilst hjá sumum þeirra það sem ég segi. Ég veit ekki sjálfur hvernig á því stendur en allt er það ágreiningur sem hægt er að jafna. Ég var ekki þeirrar skoðunar, og vil undirstrika það við mótmælum hv. þm. Eyglóar Harðardóttur, að allar upplýsingar í þessu máli væru komnar fram. Það sem ég var að nefna var það að sumt af því sem haldið er fram í umræðunni úti í samfélaginu og hér af stjórnarliðum, að stjórnarandstaðan sé sýknt og heilagt að endurtaka sig, sé ekki rétt, einfaldlega vegna þess að það eru að koma upp nýjar og nýjar áherslur. Þetta vildi ég undirstrika, það var meining mín í því sem ég sagði. Það er hárrétt sem hv. þingmaður hefur sagt hér um samflokksmann sinn, sem situr í bankaráði Seðlabankans, Daniel Gros, að þar eru nýjar upplýsingar á ferðinni sem við hljótum að kalla á að verði rýndar.

Ég nefndi líka í ræðu minni mál sem lúta að gengisóvissu og kemur þar fram þessi greining sem ég nefndi frá IFS. Ég nefndi það líka í framsögu minni við 2. umr. að fyrir liggja upplýsingar um bréf frá skilanefnd Landsbankans til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, sem dagsett er 26. febrúar, sem full þörf er að gaumgæfa og vara við þeirri óvissu sem gæti leitt af gengismálum tengdum skuldbindingu tryggingarsjóðsins. Einnig liggur fyrir, og hefur verið sett fram í efnahags- og skattanefnd, bréf frá slitanefndum allra bankanna, tillaga að frumvarpi í þeim efnum sem taka á þessum þætti. Þetta er allt órætt og við þurfum að ræða þetta.

Ég vil að auki geta þess að hv. formaður fjárlaganefndar hefur skrifað fjórum mætum lögspekingum og kallað eftir viðhorfum þeirra í ljósi þeirrar (Forseti hringir.) umræðu sem hér hefur átt sér stað.