Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 15:08:41 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:08]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (frh.):

Virðulegur forseti. Takk fyrir þetta, það var í góðu lagi af minni hálfu að hleypa hv. þm. Illuga Gunnarssyni að.

Fyrr í dag fór ég hér aðeins yfir forsögu þessa máls sem við erum að ræða um, Icesave-málsins. Hún er löng og nokkuð erfið og nú stöndum við í þeim sporum að ræða þetta mál mjög ítarlega í annað sinn. Það eru ýmis atriði á þessari leið sem er vert að staldra við. Menn spyrja sig stundum hvernig standi á því að við stöndum í þeim sporum sem við stöndum í í dag. Af hverju erum við að taka á okkur — virðulegur forseti, ég vil gera smáhlé á ræðu minni, ég á 20 mínútur en ekki 10 mínútur í ræðu, þetta er önnur ræða mín í þessu máli þannig að það leiðréttist kannski hér með.

Margir spyrja af hverju við stöndum í þeim sporum sem við stöndum í núna og erum að fara að taka á íslenska þjóð miklar skuldbindingar, þurfum að skera hér mjög mikið niður í ríkisfjármálunum og hagræða. Það þarf líka að hækka skatta til að ná í meiri tekjur þannig að það er svolítið skökk mynd sem almenningur stendur frammi fyrir. Þetta er allt vegna þess að ákveðnir aðilar hafa farið fram úr sjálfum sér, ef svo má að orði komast, þannig að fólki finnst þetta auðvitað gífurlega óréttlátt. En í þessum sporum stöndum við. Þessi mál verða kannski gerð almennilega upp síðar í okkar lýðræðisríki.

Virðulegi forseti. Ég geri ráð fyrir því að ég eigi fleiri mínútur en sýndar eru.

(Forseti (SVÓ): Það er verið að kanna það, hv. þingmaður, hvaða ræðutíma þingmaðurinn hefur, en ég hygg að það sé rétt hjá hv. þingmanni að hann hafi 20 mínútur en ekki tæpar 8 eins og segir á klukkunni.)

Já, virðulegur forseti, takk fyrir þetta, það er rétt. Ég held þá ótrauð áfram í trausti þess að ég fái að tala út minn tíma hér.

Það er ýmislegt í forsögunni sem er kannski eðlilegt að staldra við og ég vil sérstaklega gera að umtalsefni fyrirspurn sem ég bar upp á 136. löggjafarþingi, þ.e. á síðasta ári, vegna alls þess orðróms sem maður heyrði um hvað hefði átt sér stað og hvaða forsaga væri á bak við fall bankanna og það að við stæðum núna uppi með þessar Icesave-skuldbindingar í fanginu yfirleitt. Sú er hér stendur kaus að koma með ýmsar fyrirspurnir á hina og þessa hæstv. viðeigandi ráðherra og ég vil sérstaklega grípa inn í, virðulegur forseti, fyrirspurn sem ég bar upp við þáverandi hæstv. viðskiptaráðherra og svar við henni. Hún var um tölvupóst til breska fjármálaráðuneytisins. Fyrirspurnin hljóðaði svona, með leyfi virðulegs forseta:

„Hvernig hljóðar tölvupóstur sá frá viðskiptaráðuneytinu dags. 14. ágúst 2008 sem vísað er til í bréfi til breska fjármálaráðuneytisins 20. ágúst, sbr. svar á þskj. 503 við fyrirspurn um bréf til breska fjármálaráðuneytisins?“

Það er ýmislegt upplýst í tölvupósti sem er sendur frá íslenskum stjórnvöldum, úr viðskiptaráðuneytinu, til breska fjármálaráðuneytisins og mig langaði að gera þetta bréf hér að umtalsefni af því að það sýnir svolítið hvað íslensk stjórnvöld voru í þröngri stöðu og hvaða skilaboð við gáfum breskum stjórnvöldum. Í svarinu frá íslenskum stjórnvöldum segir, með leyfi forseta:

„Það er alveg skýrt samkvæmt lögunum að sjóðnum ber að greiða út kröfur allt að 20.887 evrum og því mundi stjórnin ávallt leita eftir láni til þess að tryggja að sjóðurinn greiði út það lágmark.“

Íslensk stjórnvöld eru að segja að tryggingarsjóðurinn muni ávallt leitast við að uppfylla þessa skyldu sína að mati íslenskra stjórnvalda og sjóðurinn leiti þá eftir láni til að tryggja að hægt sé að greiða út þetta lágmark. Það kemur einnig fram í öðrum upplýsingum, virðulegur forseti, úr viðskiptaráðuneytinu á þessum tíma að stjórnvöld muni gera allt sem í þeirra valdi stendur til að staðið verði við þessar skuldbindingar sem við öll erum meira og minna að deila um hvort þurfi að standa við eða ekki.

Áður en bankarnir hrynja gefa íslensk stjórnvöld mjög sterkt til kynna að þau muni standa við bakið á íslenska tryggingarsjóðnum þannig að hægt sé að greiða upp að 20.887 evrum á reikning. Þetta er sú mynd sem bresk stjórnvöld fá áður en bankarnir hrynja. Auðvitað voru bresk stjórnvöld að kalla eftir svona upplýsingum, þau voru mjög uggandi og vissu í hvað stefndi miðað við allt sem síðan hefur komið í ljós. Íslendingar sögðu áður en bankarnir hrundu: „Við ætlum að borga.“ Það er bara ekkert hægt að skilja það öðruvísi.

Forsagan er erfið í þessu máli, virðulegur forseti. Bæði þessar upplýsingar og þau drög að samningi sem þáverandi hæstv. fjármálaráðherra gerði ásamt öflum úr utanríkisráðuneytinu hafa gert samninganefndinni okkar erfitt fyrir. Núna stöndum við í þessum sporum löngu síðar og erum enn að velta þessu máli fyrir okkur, enn mjög ósátt við það. Icesave-málið var lengi í nefnd í sumar og var skoðað þar ítarlega. Margir hafa sagt að málið hafi fengið mjög efnislega og mikla skoðun í sumar og að sú skoðun hafi meira og minna verið vegna þess að menn vildu skoða það til hlítar, en það verður að viðurkennast að það var líka af því að það var ekki meiri hluti fyrir því í þinginu. Það var ekki hægt að taka það út hraðar, það varð að hafa það inni mjög lengi til að stjórnarliðar gætu barið hópinn saman á bak við þetta mál. Það tók langan tíma. Menn muna að hv. þingmenn úr Vinstri grænum voru mjög tregir í taumi mjög lengi og eru líklega enn eitthvað ósáttir við þetta allt saman. Málið hlaut að vera lengi í þinginu á sínum tíma til að gefa stjórnarliðum rými til að ná meiri hluta fyrir þessu máli. Hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði í þeirri umræðu mikil líkindi til þess að sú atkvæðagreiðsla sem fór fram í sumar um þetta mál færi 63:0. Það var auðvitað skot út í loftið og ekkert á bak við það, enda fór atkvæðagreiðslan ekki 63:0.

Núna stöndum við með nýjan samning í höndunum sem stjórnarandstæðingar eru ekki ánægðir með og telja verri en þann sem við vorum með í sumar. Ég vil gera sérstaklega að umtalsefni hér hóp sem hefur unnið mikið í þessu máli, þ.e. Indefence-hópinn, sérfræðingar þeirra hafa skoðað þetta mjög vel, bæði samninginn sem gerður var í sumar, lögin sem við samþykktum í sumar og jafnframt það sem kom síðan eftir að Hollendingar og Bretar sýndu að þeir væru ekki ánægðir með niðurstöðu mála hér í sumar, þ.e. nýja samninginn. Þeir hafa skoðað hann líka. Indefence-hópurinn hefur gefið út fréttatilkynningu og í henni segir að með viðaukasamningunum um Icesave hafi Bretar og Hollendingar náð að knýja fram grundvallarbreytingar á lögum Alþingis nr. 96/2009. Þeir segja líka að viðaukasamningarnir gangi þvert á mikilvægustu fyrirvara Alþingis, að ábyrgð ríkisins sé aftur orðin hluti af skilyrðislausum lánasamningi og að Icesave-lánasamningarnir séu aftur komnir í hrópandi ósamræmi við Brussel-viðmiðin.

Þetta er heildarniðurstaða Indefence-hópsins sem hefur beitt sér mikið í þessu máli og skoðað það mjög vel. Þeir gefa út talsvert vandað álit í fréttatilkynningu frá 2. nóvember 2009. Ég ætla ekki að fara neitt mjög djúpt í það álit, en þar eru færð mjög sterk rök fyrir því að heimildin til að leita úrlausnar dómstóla er mun veikari í viðaukasamningunum en í núgildandi lögum. Það er auðvitað mjög mikil afturför frá fyrri niðurstöðu í sumar. Þeir færa líka rök fyrir því að með viðaukasamningunum geti svokallaður Ragnars Halls-fyrirvari aðeins orðið gildur ef ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins sé í samræmi við niðurstöður íslenskra dómstóla og að í þessu felist yfirlýsing um að Bretar viðurkenni ekki lögsögu íslenskra dómstóla gagnvart þessari lögspurningu. Það er ekki mikið hald í þessum svokallaða Ragnars Halls-fyrirvara í þessum nýja samningi.

Svo segja þeir líka í samantekt sinni að fyrirvarar Alþingis um að ríkisábyrgð skuli aðeins gilda til ársins 2024 falli óbættir hjá garði af því að í núgildandi fyrirvörum felist réttur til að ríkisábyrgðin falli einhliða niður ef viðræður um framlengingu hennar bera ekki árangur. Þessi vörn er núna horfin. Í stað þessara mikilvægu fyrirvara Alþingis er í viðaukasamningi ríkisstjórnarinnar ákvæði um að greiðslur Íslands skuli eftir 2024 framlengjast sjálfkrafa um fimm ár í senn með 5,5% vöxtum allan tímann þar til skuldin er að fullu greidd. Hér verður einnig að gæta að því að ef neyðarlögin standast ekki samkvæmt niðurstöðu dómstóla er stórhætta á að Icesave-lánið verði að eilífðarklafa á íslensku þjóðinni tugi ára fram í tímann. Þeir segja í niðurstöðu sinni að nýja frumvarpið sem við erum nú að fjalla um hér við 2. umr. sé brunaútsala á fyrirvörum Alþingis í Icesave-málinu. Það er frekar sterkt tekið til orða hjá Indefence, þeir kalla þessa niðurstöðu brunaútsölu á fyrirvörunum.

Það er auðvitað erfitt að upplifa þetta af því að það náðist niðurstaða í sumar þó að sú er hér stendur hafi reyndar ekki greitt atkvæði með henni, ég taldi að við ættum að setjast niður og semja aftur. Það var það sem Vinstri grænir komust að þegar við vorum einmitt með þetta mál á fyrri stigum, þá vildu Vinstri grænir vísa málinu frá, setjast niður og reyna að semja aftur við Breta og Hollendinga. Sú tillaga var felld og varatillagan var að setja málið í bið þangað til Bretar væru búnir að aflétta hryðjuverkalögunum sem þá voru í gildi. Málin hafa síðan snúist algjörlega við.

Indefence er einnig með samanburð á greinunum í núgildandi lögum um ríkisábyrgðina og í frumvarpinu sem við erum að fjalla um hér. Ég hef ekki tíma í ræðu minni til að fara í samanburð þar, en sá samanburður er mjög ítarlegur og fróðlegur.

Þeir hafa einnig kosið að láta prenta upp í fréttatilkynningu sinni grein eftir Stefán Má Stefánsson prófessor og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmann sem birtist í Morgunblaðinu 31. október. Þar fara þessir lögfróðu menn yfir nýja frumvarpið. Niðurstaðan er athyglisverð hjá þeim og sýnir að margir hafa miklar áhyggjur af þessu máli úti í samfélaginu, ekki bara stjórnarandstaðan, heldur miklu fleiri. Þeir segja, með leyfi virðulegs forseta:

„Niðurstaða þessa samanburðar er afdráttarlaus. Þeir fyrirvarar sem mestu skiptu til að takmarka ríkisábyrgðina vegna Icesave-samninganna eru nánast að engu orðnir út frá lögfræðilegu sjónarhorni. Skuldbindingar íslenska ríkisins eru á ný orðnar óljósar og ófyrirsjáanlegar bæði hvað varðar fjárhæðir og tímalengd. Vera kann að Alþingi samþykki umrætt frumvarp engu að síður og þá út frá öðrum brýnum sjónarmiðum en lögfræðilegum. Um það verður ekki rætt hér. Hins vegar er ljóst að fyrirvararnir sem settir voru fyrir ríkisábyrgðinni í haust geta ekki verið réttlæting fyrir því að samþykkja ríkisábyrgðina samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi.“

Það eru Stefán Már Stefánsson lagaprófessor og Lárus L. Blöndal hæstaréttarlögmaður sem komast að þessari niðurstöðu eftir að hafa skoðað málið ítarlega.

Ég vil líka grípa niður í annað skjal hér, virðulegur forseti, sem ég tel mikilvægt að menn hafi í huga, nefndarálitið frá meiri hluta fjárlaganefndar um þetta mál. Þar eru fylgiskjöl m.a. álit 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar. Það er mjög afdráttarlaust. Hv. þm. Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson rita það, þingmenn Vinstri grænna, eru sem sagt ekki í stjórnarandstöðu heldur tilheyra stjórnarmeirihlutanum. Þar er rökrætt þetta svokallaða skuldaþol íslenska þjóðarbúsins. Í þessu nefndaráliti segja hv. þm. Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson, með leyfi virðulegs forseta:

„Í nóvember 2008 mat AGS að 240% skuldahlutfall væri „augljóslega óviðráðanlegt“ (clearly unsustainable). Ári síðar telur sjóðurinn að 310% hlutfall sé viðráðanlegt. Þessi mótsögn í mati sjóðsins er athyglisverð í ljósi þess að íslenska ríkið gæti ekki ábyrgst lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu ef skuldaþolsmörkin frá því í nóvember 2008 héldu og væru enn 240%. Það er ekki hægt að útskýra þessa stefnubreytingu AGS nema með þeim hætti að Bretar og Hollendingar hafi beitt pólitískum þrýstingi í stjórn AGS til að tryggja að íslenska ríkið taki á sig Icesave-skuldbindingarnar.“

Hérna segja hv. þm. Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson það sem eiginlega blasir við öllum, að AGS hafi sagt að við gætum alls ekki ráðið við 240% skuldahlutfall sem breyttist svo bara allt í einu og þá var sagt að 310% hlutfall væri bara vel viðráðanlegt. Þetta er algjör mótsögn og það eru engin rök á bak við þetta nema út af pólitískum þrýstingi. Það er sagt að Íslendingar geti bara borgað eiginlega hvað sem er sem að mínu mati er ekki réttmætt.

Ég vil líka grípa niður í nefndarálit 3. minni hluta sem er frá Þór Saari. Þar kemur fram, með leyfi virðulegs forseta, að skoða þurfi „skuldastöðuna með hliðsjón af aðstæðum í hverju landi“. Svo kemur svolítið merkileg setning:

„Málið er ekki hvort ríkið geti staðið undir skuldbindingum sínum — heldur hvort þjóðin geti það.“

Þarna skilur Þór Saari algjörlega á milli ríkisins og þjóðarinnar og heldur því fram að ríkið geti staðið í skilum með því einfaldlega að taka þessa upphæð af þjóðinni í formi hærri skatta og/eða skertrar velferðarþjónustu og að málið snúist um efnahag Íslands á meðan á greiðslum stendur en að hugsanlega geti verið svo mikil skattlagning að við komumst seint upp úr henni, að fólk og fyrirtæki séu hreyfanleg og mörg þeirra muni flýja land ef of langt verður gengið í skattheimtunni og það verði mikil skerðing lífskjara.

Ég tel að þetta sé mjög réttmæt ábending, virðulegur forseti.

Ég sé að ég á nú bara mínútu eftir af ræðutíma mínum en er ekki komin alla leið í ræðunni. Það verður svo að vera. Ég vil þó leyfa mér að segja hér, virðulegur forseti, af því það hefur margoft borið á góma í umræðunni að margir tengja ESB-umsóknina við Icesave-málið að ég er ósammála þeirri nálgun. Ég sé ekki tengingu þarna á milli og tel að óháð því að við höfum lent í einhverju bankahruni og vandræðagangi með þessa Icesave-samninga hefðum við að öllum líkindum, að mínu mati, sótt um aðild að ESB þó að við vitum auðvitað ekkert um niðurstöðuna, hvað kemur úr þeim samningum. Ég er ekki sammála þeim sem tengja þessi tvö mál saman. Ég tel að þau séu ekki tengd og hafi lítið með hvort annað að gera.