Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 16:57:22 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:57]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ræðu hans. Ræðan sýnir enn á ný, eins og greining hv. þm. Ólafar Nordal í Pressunni í morgun og fyrri ræða hv. þingmanns, hvað þetta mál er stórt og viðamikið. Ég verð að segja að mér finnst svolítið einkennileg tilfinning að gera mér grein fyrir því að áföll sem verða í landi sem manni finnst vera hinum megin á plánetunni geti haft svona mikil áhrif á Ísland.

Ég held að það hafi verið Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem setti fram skýrslu þar sem talið var að bandarískir bankar hefðu afskrifað mjög mikið af sínum skuldum og væru komnir með mun heilbrigðari efnahagsreikninga í samanburði við evrópska banka. Þeir lýstu því yfir að þvílíkar upphæðir væru enn þá í pípunum varðandi tap hjá evrópskum bönkum. Telur þingmaðurinn í þessu endurspeglist að áfallið af því sem er að gerast í Dúbaí verði mun meira fyrir þessi tvö Evrópulönd eða evrusvæði? Hvernig gengur það saman við það sem maður heyrir um að hlutirnir séu komnir í þokkalegt ásigkomulag á evrusvæðinu og allt sé á réttri leið, sem hefur kannski einmitt gert það að verkum að þeir sem hafa talað fyrir evrunni og því að ganga inn í Evrópusambandið hafa fengið stuðning við sinn málflutning? Er þetta rangt? Er skuldastaða t.d. landa í Evrópusambandinu kannski miklu, miklu verri og skuldastaða banka líka, (Forseti hringir.) eða lánasöfnun þeirra, sem endurspeglast í því að þau eru mun viðkvæmari (Forseti hringir.) fyrir svona áföllum?