Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 17:47:52 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:47]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að flestir hafi átt von á því að einhverjir mundu láta reyna á neyðarlögin sem sett voru í október 2008. Það er mín skoðun að það sé afar varhugavert fyrir þingmenn löggjafarvaldsins að ræða um og velta þeim málum fyrir sér hvort neyðarlögin standist. Í mínum huga standa neyðarlögin þar til einhver hefur farið í mál og fengið þeim hnekkt, frú forseti. Ég hef ekki skoðað það sérstaklega en mér er umhugað um að við stöndum vörð um þau lög sem þó gilda og séum ekki að velta fyrir okkur hvort þau standist eða standist ekki. Ég held að það sé varhugavert fyrir okkur og Alþingi Íslendinga að við yfir höfuð veltum því fyrir okkur. Það tel ég að ýti undir ótta og efa í samfélaginu og við erum ekki bættari með því hér og nú að svo verði.