Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 17:56:09 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:56]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir svarið við fyrri spurningunni, þeirri um tengsl Evrópusambandsins og Icesave. Ég tek fyllilega undir þær vangaveltur og skoðanir sem koma fram hjá hv. þingmanni um að það sé hreint ekki við hæfi af Evrópusambandsþinginu að skipta sér af þessu á þessum tímapunkti. Maður veltir fyrir sér hvort það sé gert vísvitandi eða af einhverjum klaufaskap akkúrat þegar málið er í lokahnykk við 2. umr.

Varðandi seinni spurningu mína, um það hvort hv. þingmaður telji að hér sé á ferðinni mál sem verði þess eðlis að alþjóðasamfélagið ráðist á okkur, eins og menn hafa stundum sagt, eftir 30. nóvember langar mig að heyra hvort hv. þingmaður deilir þeim áhyggjum með þeim í hæstv. ríkisstjórn sem þó hafa úttalað sig um það.