Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 18:34:21 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var auðvitað á vissan hátt ósanngjarnt af mér að spyrja hv. þm. Margréti Tryggvadóttur út í afstöðu hv. þingmanna í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði en auðvitað deilum við hugsunum að þessu leyti. Við höfum fylgst með því t.d. í sumar hvernig afstaða nokkurra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tryggði að málið gerbreyttist. Þegar ákveðinn hópur þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs náði í rauninni samstöðu með stjórnarandstöðunni áttaði ríkisstjórnin sig á því að það var ekki um annað að ræða en breyta málinu. Þannig var það í sumar, það var alveg klárt.

Í sumar myndaðist óformlegt bandalag um að málið mætti ekki fara óbreytt í gegn. Að því stóðu stjórnarandstaðan og nokkrir þingmenn Vinstri grænna og það neyddi ríkisstjórnarflokkana til að breyta málinu. Þeir höfðu auðvitað þann ásetning að fara með málið óbreytt í gegn, það kom skýrt fram á fyrstu stigum málsins. Hæstv. ráðherrar sögðu í ræðustól að við værum komin eins langt og við gætum þá, í byrjun júlí. Þeir sögðu að við værum komin á endastöð, m.a. hæstv. félagsmálaráðherra sem ekkert hefur sést í þessari umræðu. Hann sagði það skýrt og ekki var hægt að skilja hæstv. fjármálaráðherra öðruvísi en hann væri þeirrar skoðunar þegar málið var lagt fram og eins þegar hann kom í byrjun ágúst fram í Kastljósinu og sagði að öll gagnrýni á frumvarpið í upphaflegri mynd væri byggð á misskilningi og henni hefði verið svarað með rökum. Þannig var tónninn á þeim vettvangi. Svo ég minnist ekki á hv. þm. Björn Val Gíslason sem var þeirrar skoðunar held ég allan tímann að málið ætti að fara óbreytt í gegn. (Gripið fram í.) Það er heiðarleg skoðun og það er gott þegar menn halda sig fast við slíkt en það var ekki skoðun mjög margra í hans eigin flokki.