Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Laugardaginn 28. nóvember 2009, kl. 21:05:22 (0)


138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:05]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að nota ræðutíma sinn í að ræða þetta mikilvæga mál. Mér finnst það vera grundvallarmál hvort við erum á löglegum eða ólöglegum fundi. Mér finnst ferlega skrýtið, ég kem náttúrlega af öðruvísi vinnumarkaði, ég hef ekki verið á þingi áður, en venjulega ef maður er kallaður út í vinnu á óreglulegum vinnutíma þá nýtur maður meiri réttinda en ekki öfugt. Hér virðist það vera svo að hæstv. forseti ákveði að í raun gildi engar reglur um þennan fund þótt þær gildi á öðrum fundardögum á reglulegum tíma.

Mig langar að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson hvort það gæti verið möguleiki úr því þetta eru ný þingsköp að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar og hæstv. heilbrigðisráðherra, Álfheiður Ingadóttir, sem vísar í það að alltaf hafi verið hefð fyrir hinu og þessu á óreglulegum fundum, hvort það sé möguleiki að þau hafi hreinlega, þessir hv. þingmenn, hæstv. ráðherrar og forsetar, gleymt því að við erum að vinna eftir nýjum þingskapalögum.

Mig langar líka að spyrja hv. þm. Birgi Ármannsson hvort hann telji þá að önnur ákvæði um þingsköp, ræðutíma og annað gildi. Hvernig ber að túlka það, eftir hvaða reglum erum við eiginlega að vinna í dag?