Icesave

Mánudaginn 30. nóvember 2009, kl. 11:06:34 (0)


138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

Icesave.

[11:06]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þetta takmarkaða svar. Það er eflaust margt sem sá sem hér stendur á að vita og á að hafa töluverðar upplýsingar um. En það er hins vegar eitt og annað sem krefst þess að varpað sé skýrara ljósi á, ekki síst í ljósi þess hvernig umræðan um þetta blessaða mál hefur gengið í þingsölum og úti í þjóðfélaginu.

Því hefur verið haldið fram til þess að samstarfsáætlun við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gangi eftir, fjármálum heimilanna verði komið í lag, endurreisn bankakerfisins verði hafin, lán frá Norðurlöndunum geti gengið eftir, þurfi skilyrðislaust að vera búið að ljúka þessu Icesave-máli. Það er í greinargerðinni með því frumvarpi sem kemur til umfjöllunar í dag að þessu þurfi að vera lokið í dag. Ég bíð næst eftir því að heyra að íslenska þjóðin þurfi að fresta jólunum ef við erum ekki búin að klára þetta mál fyrir 1. desember. (Forseti hringir.) Ég spyr enn og aftur hæstv. fjármálaráðherra: Hvernig hefur verið haldið utan um viðbrögð Hollendinga á grunni þeirra yfirlýsinga sem fjármálaráðherrann gaf?