138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:35]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnirnar. Það er alveg rétt, ég spurði hæstv. fjármálaráðherra að þessu í ræðu minni og ég vona að hann sjái sér fært að svara því annaðhvort í ræðu eða formlega af því að ég mun leggja þetta fram sem formlega fyrirspurn til hæstv. ráðherra.

Ég get ekki svarað því hvort hæstv. ríkisstjórn hafi haldið rétt á þessu málum. Miðað við orð hæstv. fjármálaráðherra segi ég nei — þ.e. það hefur verið gert ítrekað í viðræðuferlinu og væntanlega komist til skila inn í samningaferlið. Hæstv. fjármálaráðherra sagði að fjármálaráðherra Hollands hefði ekki átt sæti í samninganefndinni, það er rétt, en hann vonaðist til að þetta hefði komist til skila. Það finnst mér ekki traust. Auðvitað hefði átt að halda þannig á þessum málum að það væri tryggt að þetta kæmi til skila. Ég vek athygli á því aftur að þessi ummæli hæstv. fjármálaráðherra Hollands lágu fyrir í mars. Hæstv. fjármálaráðherra tók við ábyrgðinni á þessu máli 1. febrúar. Það var skrifað undir 5. júní. Ummæli fjármálaráðherra Hollands lágu fyrir þegar skrifað var undir 5. júní þannig að ég geri ráð fyrir því að hæstv. ríkisstjórn hafi fyrirskipað samninganefnd sinni að nota þetta sjónarmið vegna þess að þarna er um mikilvægan þátt í málflutningi okkar að ræða. Ég treysti því að því hafi verið fylgt eftir og þess vegna hef ég ítrekað kallað eftir þessum samskiptum, kallað eftir upplýsingum, kallað eftir fundargerðum vegna þess að ég trúi því ekki þegar um svo mikilvægt mál er að ræða að formleg samskipti séu ekki (Forseti hringir.) færð til bókar, ekki síst ef til þess (Forseti hringir.) mundi koma að þetta færi fyrir dómstóla.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill geta þess að klukkan í ræðupúlti virkar ekki en það er tekin tímamæling af forsetastóli.)