138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:48]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna upp að ræða þetta erfiða mál enn og aftur og mig langar kannski í upphafi máls míns að minnast á að fyrr í dag og í fyrri ræðum hefur það komið fram að þetta mál hefur farið í hin furðulegu pólitísku hjólför alveg frá upphafi — og þá er ég líka að tala um haustið 2008 — þar sem stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar takast á og deila um málið, mál sem þó er augljóslega þannig vaxið að það eru sameiginlegir hagsmunir allrar þjóðarinnar og þar með auðvitað ættu það að vera sameiginlegir hagsmunir allra þingmanna að standa saman um hvað væri nauðsynlegt og mikilvægast að verja í samskiptum við viðsemjendur okkar, þ.e. Hollendinga og Breta.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að taka þetta ítrekað fram þar sem umræðan síðustu daga hefur verið hér með afspyrnusérkennilegum hætti þar sem við í stjórnarandstöðunni höfum spurt spurninga, m.a. vegna nýrra upplýsinga sem koma fram, og það væri í sjálfu sér áhugavert að hæstv. fjármálaráðherra væri hér til að hlusta á ræðu mína og svara því sem ég spyr. Hann sagði í andsvari áðan að það væru svo sem engar nýjar upplýsingar að koma fram. Í ræðum okkar í síðustu viku, alla dagana má segja, var bent m.a. á nokkra hluti sem hafa komið nýir fram sem eru þess eðlis að ég hef a.m.k. ekki heyrt nægilega góð rök frá hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. fjármálaráðherra eða hv. formanni fjárlaganefndar sem skýra þetta mál. Auk þess er það ekki það sem við erum að fara fram á því að þá höldum við þessu máli áfram í þessum pólitísku skotgröfum. Það sem við höfum farið fram á er að málinu verði vísað til nefndar vegna nýrra upplýsinga og má þar nefna upplýsingar úr álitsgerð Daniels Gros um síðustu helgi sem tengjast jafnræði á innstæðutryggingarsjóðsreikningum og lánum til slíkra sjóða. Það gæti varðað allt að 185 milljörðum króna sem er upphæð sem væri kannski dálaglegt að við þingmenn værum sammála um að væri mikilvægt að skoða, og þá í þingnefnd en ekki bara í karpstíl í ræðustól.

Einnig hafa komið fram upplýsingar frá Sigurði Líndal um stjórnarskráratriði sem væri mjög mikilvægt að vísa inn í nefnd á meðan á málinu stæði í stað þess að karpa um þau í ræðustól. Við mundum þá gera hlé á umræðunni og taka önnur mikilvægari mál á dagskrá sem svo sannarlega hafa, reyndar ekki fyrr en á síðustu dögum, verið lögð fram af ríkisstjórninni en við hér í stjórnarandstöðunni höfum margítrekað að við séum tilbúin til að taka á dagskrá og fresta þá þessari Icesave-umræðu.

Það má líka benda á eitt nýtt atriði sem ekki var fjallað um í fjárlaganefnd, skuldabréf sem gengu á milli gamla og nýja Landsbankans sem gætu haft viðvarandi áhrif á gengi íslensku krónunnar. Það væri áhugavert að ræða það. Þá ítreka ég að þetta yrði ekki rætt í ræðustól milli stjórnarandstöðu- og stjórnarþingmanna, heldur tekið til málefnalegrar og faglegrar umfjöllunar í nefndum því að það er einmitt lykilatriði í þessu máli að við reynum að taka það upp úr þessum hjólförum pólitískrar þrætubókarlistar.

Í fyrri ræðum mínum náði ég ekki að koma inn á það að í nefndarálitum, sem eru þrjú frá minni hlutum fjárlaganefndar, er munur frá því að við afgreiddum málið á sumarþingi. Það er rétt að halda því til haga enn og aftur að við samþykktum lög í lok sumarþings sem gilda enn þannig að ekkert liggur á að breyta þeim. Þau eru miklu betri en það frumvarp sem hér liggur fyrir og mun eyðileggja að stóru leyti það sem ávannst, eins og kemur til að mynda fram í fréttatilkynningu frá Indefence-hópnum frá 2. nóvember sl. Í því áliti sem er fylgiskjal í nefndarálitum kemur fram í yfirskrift, með leyfi forseta:

„Með viðaukasamningunum um Icesave hafa Bretar og Hollendingar náð að knýja fram grundvallarbreytingar á lögum Alþingis nr. 96/2009.

Viðaukasamningarnir ganga þvert á mikilvægustu fyrirvara Alþingis.

Ábyrgð ríkisins aftur orðin hluti af skilyrðislausum lánasamningum.

Icesave-lánasamningarnir eru aftur komnir í hrópandi ósamræmi við Brussel-viðmiðin.“

Síðan var í þessari tilkynningu farið yfir mismunandi atriði í samningunum sem viðaukasamningurinn breytir og hefur auðvitað verið ræddur ítrekað í ræðustól en hefur kannski ekki verið ræddur nægilega í fjárlaganefnd. Í því sambandi langar mig að benda á að ekki einungis við í stjórnarandstöðunni reynum með orðum okkar að benda á galla á þessum viðaukasamningi og að þessu máli hafi ekki verið gerð nægileg skil af hálfu formanns fjárlaganefndar eða stjórnarþingmanna, hæstv. fjármálaráðherra eða hvers þess stjórnarþingmanns sem hér hefur talað. Kannski hafa þeir ekki talað nærri nóg því að staðreyndin er sú að við í stjórnarandstöðunni höfum ekki sannfærst og heldur ekki þjóðin. Í skoðanakönnunum, reyndar óformlegum, sem haldnar hafa verið hefur ítrekað komið í ljós að þjóðin er á móti þessum Icesave-samningi þannig að ég held að hæstv. ríkisstjórn og hv. þingmenn í stjórnarmeirihlutanum ættu að taka það til sín að það standi upp á þá að koma hingað og reyna að útskýra fyrir þjóðinni af hverju í ósköpunum það er svona mikilvægt að við samþykkjum þennan viðaukasamning og hvort það sé virkilega svo að viðaukasamningurinn sé betri en samningurinn sem var samþykktur á sumarþingi. Það er náttúrlega með ólíkindum að einhver skuli halda því fram. Eins og ég las m.a. áðan frá Indefence-hópnum veikir viðaukasamningurinn verulega fyrirvarana og nær því miður í sumum tilvikum að fletja þá algjörlega út þannig að öll vörn er horfin úr samningnum, eins og menn lögðu nú mikið á sig í sumar.

Í því ljósi er líka rétt að minna á að í sumar var lögð mikil vinna, sérstaklega í fjárlaganefnd, og öðrum nefndum þingsins, efnahags- og skattanefnd t.d. og viðskiptanefnd, í að búa til þessa fyrirvara sem við síðan samþykktum. Það er þó rétt að ítreka líka að við framsóknarmenn töldum að ekki væri nægilega langt gengið og töldum að þetta fæli hugsanlega í sér áhættu um að þetta væri tilboð um nýja samninga og þá vildum við ganga lengra til þess að setja fram okkar ýtrustu kröfur. Ef þetta var síðan sá grunnur sem gengið var út frá við samningagerðina hefði auðvitað átt að ganga miklu lengra. Til að mynda hefði átt að leggja til að í upphaflega samningnum yrðu felld út öll vanefndaákvæðin sem gera það að verkum að maður er í miklum vafa um hvort viðaukasamningurinn hafi þau áhrif að við getum nokkurn tíma varið okkur seinna meir, eins og hefur reyndar komið fram í máli nokkurra forsvarsmanna þessarar ríkisstjórnar, bæði formanns fjárlaganefndar og eins hæstv. utanríkisráðherra, sem töldu að við gætum lagað málið seinna, farið í samningaviðræður seinna en vildu bara ganga frá þessu núna. Ég tel það fjarstæðukennt, og eitt af því sem ég óttast er að vanefndaákvæðin í upphaflega samningnum geri það að verkum að okkur sé það hreinlega óheimilt.

Ég sé að þessar 10 mínútur líða nokkuð hratt. Ég er því miður ekki búinn að fara í gegnum allt málið, frú forseti, og bið því frú forseta að setja mig á mælendaskrá aftur.