Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 18:46:07 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:46]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Illuga Gunnarssyni að samskipti opinberra aðila við viðsemjendur okkar, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Norðurlöndin, hafa verið með þeim hætti að hér hafa spunnist heilmiklar umræður og menn hafa spurt hvernig þeim hafi verið háttað og hvort hægt hefði verið að hafa þau með einhverjum öðrum hætti. Ég hef til að mynda verið á þeirri skoðun að mjög mikilvægt sé að formleg samskipti milli forsætisráðherra og fjármálaráðherra þjóðanna fari fram og tel að það sé enn hægt. Ég held að hæstv. ráðherrar, bæði forsætis- og fjármála-, íslenskir ættu hreinlega að fara í slíka ferð, og mættu þess vegna taka hæstv. utanríkisráðherra með sér, og hitta kollega sína í þessum löndum, ekki bara í Hollandi og Bretlandi, heldur líka á Norðurlöndunum og víðar.

Ég hef upplifað það í viðræðum við þingmenn á Norðurlöndunum að þeir hafa ekki verið upplýstir á réttan hátt um þá stöðu sem uppi er. Þeir töldu að fyrir lifandis langa löngu væri búið að afgreiða lánin frá Norðurlöndunum til Íslands og þeir töldu líka að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði fyrir löngu afgreitt endurskoðun sína frá því í febrúar og það kom þeim algjörlega í opna skjöldu að hér í októbermánuði væri enn allt uppi í loft, hvað þá þegar upplýst var að þeirra eigin stjórnvöld hefðu ekki leyft að lána hingað nema að við hefðum samþykkt Icesave-samningana, það kom þeim algjörlega í opna skjöldu. Þannig að mér hefur fundist skorta á að kynning á þessu máli erlendis sé nægileg, bæði með formlegum hætti og kannski líka (Forseti hringir.) eins og kom fram í máli hv. þingmanns að bréfaskriftir (Forseti hringir.) einstaklinga á Íslandi til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skili meiri árangri, (Forseti hringir.) opinberlega alla vega.