Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 18:53:51 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. utanríkisráðherra fyrir hugleiðingar hans hér í pontu. Ég vil byrja á því að mótmæla því að hér sé um skipulagt málþóf að ræða. Þó að hæstv. ráðherra sé kannski einn af snillingunum í spuna og jafnvel í málþófi fyrri tíma og ætti að þekkja það þá er það engu að síður þannig, og ég ræddi það reyndar í ræðu minni áðan, að ekki fékkst upplýst hvort ýmis efnisatriði yrðu tekin til efnislegrar umræðu. Við höfum ekki fengið nein loforð um það, þar á meðal er þetta atriði sem ég nefndi áðan um ójafnræði milli innlánstryggingarsjóðanna sem gæti hugsanlega kostað okkur um 200 milljarða. Ég tel það þess efnis og er alveg sammála hæstv. ráðherra í því að það er verkefni sem við ættum að sammælast um hér í þinginu og ættum ekki að rífast um, en við ættum hins vegar að vera viss um með hvaða hætti við ætlum að skoða það. Það verður að vera tryggt að það verði tekið til efnislegrar umfjöllunar í viðkomandi nefnd. Varðandi samskipti þingmanna og ríkisstjórnarinnar, þá kem ég inn á það sem við hv. þingmaður Illugi Gunnarsson vorum að ræða hér áðan, að það eru einmitt svona hlutir sem mér finnst og hefur fundist skorta, herra forseti, að ríkisstjórnin haldi nægilega vel á spöðunum á hvað þetta varðar. Mér hefur fundist að hæstv. ráðherrar hefðu til að mynda af þessu tilefni átt að eiga fund með viðkomandi ráðherrum, fjármálaráðherrum og forsætisráðherrum Hollands og Bretlands, og taka þetta mál til að mynda upp nú þegar. Ef það er meiningin að klára þetta mál hér á næstu dögum eða vikum þarf að liggja fyrir hvernig niðurstöður í svona veigamiklum málum eru.