Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 20:44:21 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:44]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar maður fer að leita að sannfæringu og málefnalegum rökum fyrir að ganga frá þessu máli núna hjá stjórnarliðum er þetta svolítið eins og að leita að nál í heystakk og svör hv. þingmanns eru ágætisdæmi um það. En þó var eitt sem kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra í dag en þar fullyrti hæstv. fjármálaráðherra að um væri að ræða grímulausar hótanir af hálfu ESB-ríkja. Ég ætla hæstv. fjármálaráðherra ekki það að fara rangt með, ég tel að hann hljóti að hafa upplýsingar frá fyrstu hendi hvað þetta varðar. Hvert er mat hv. þingmanns á því hvort við eigum að láta undan undir þessum hótunum ESB? (Gripið fram í.) Eigum við að gera það? Nú kallar hæstv. fjármálaráðherra fram í. Það er kannski fyrirboði þess að við fáum að sjá hann (Forseti hringir.) í ræðustól.