Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 21:03:59 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:03]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

(Utanrrh.: … í 100. skipti …) Virðulegi forseti. Hér spurði hæstv. utanríkisráðherra hvort þetta væri í 100. skipti sem ég kæmi upp, ég kann ekki alveg að segja frá því. En, frú forseti, þó að hæstv. utanríkisráðherra hafi kallað þetta fram í líður mér á engan hátt eins og Emil í Kattholti þegar hann tálgaði 100. spýtukarlinn fyrir óknyttaskapinn, mér líður nú ekki þannig því að ég er að reyna að opna augu hæstv. utanríkisráðherra í þessu stóra máli.

Frú forseti. Í svari þínu til hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar skýrðist málið örlítið betur sem ég var að kalla eftir.

(Forseti (ÁRJ): Forseti verður að biðja hv. þingmann um að virða hefðbundin ávarpsorð og hefðbundið ræðuform í þingsal.)

Já, fyrirgefðu, frú forseti, ég hef eitthvað … (Gripið fram í: Þú átt að segja háttvirtur …)

(Forseti (ÁRJ): Enn verður forseti að minna hv. þingmann á.)

Hæstvirtur, háttvirtur forseti, (Gripið fram í: Hæstvirtur forseti.) hæstvirtur forseti, virðulegi forseti, (Gripið fram í: Já.) virðulegi forseti.

(Forseti (ÁRJ): Og ekki í 2. persónu.)

Já, hárrétt, virðulegi forseti, ég biðst innilegrar afsökunar á þessu, mér vafðist tunga um tönn, virðulegur forseti, en …

(Forseti (ÁRJ): Og nú er ræðutíminn búinn.)

Nú er ræðutíminn búinn. [Hlátur í sal.] Þetta var skemmtilegt, virðulegi forseti, ég þakka þér fyrir upplýsingarnar sem komu fram í ræðu annars þingmanns …

(Forseti (ÁRJ): Enn verður forseti að minna hv. þingmann á að tala ekki í 2. persónu til forseta.)

Já, virðulegi forseti, ég þakka fyrir.