Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 21:05:43 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Kæri forseti. Ég vil gera athugasemd vegna ummæla forseta áðan um hvernig staðið yrði að því að áætla lok þessarar umræðu. Frú forseti nefndi þá að það væru svo og svo margir eftir á mælendaskrá og miðaði út frá því að umræðan mundi klárast á einhverjum tíma sem ég geri ráð fyrir að frú forseti hafi gefið sér. En ekki er hægt að miða algjörlega við þessa mælendaskrá, nú tala ég bara út frá sjálfum mér, því að ég hef reynt að halda á lofti eingöngu stærstu atriðum þessa máls, sem þó eru það mörg að ég þurfti að skrifa ræðu mína í excel-forritinu. Og nú er ég búinn að komast í gegnum u.þ.b. þriðjung af þeim helstu atriðum og hef þurft til þess tvær ræður, þar sem önnur var 40 mínútur og hin seinni 20 mínútur. Ég geri því ráð fyrir að ég þurfi að setja mig nokkrum sinnum á mælendaskrá í viðbót og því er hæpið að áætla lok umræðunnar út frá þeirri mælendaskrá sem forseti hefur nú fyrir framan sig, virðulegur forseti.