Ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Miðvikudaginn 02. desember 2009, kl. 22:37:31 (0)


138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég geri athugasemd við það eins og aðrir að ekki hafi verið upplýst hversu lengi við munum funda í kvöld. Ég vil benda á að þingskapalögin og tilgangurinn með þeim er einmitt að koma í veg fyrir svona næturfundi og bendi sérstaklega á þær breytingar sem voru gerðar í tíð síðustu ríkisstjórnar. Ég man að margir innan Vinstri grænna, ef ekki allir, gerðu verulegar athugasemdir við þær breytingar vegna þess að þeim fannst gengið á rétt minni hlutans í málinu.

Það sem maður furðar sig á, virðulegi forseti, er að sömu þingmenn, margir hverjir eru nú í ríkisstjórn, misbeita þeim lögum sem þeir lögðust sjálfir gegn að yrðu samþykkt. Ég óska eftir því, virðulegi forseti, að hún taki tillit til laganna og upplýsi okkur um (Forseti hringir.) hvenær standi til að ljúka fundinum í kvöld.