138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:10]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég ítreka ósk mína sem ég bar fram áðan að fundi verði einfaldlega frestað þannig að hægt verði að halda fund á morgun með fólkið úthvílt. Að öðru leyti vildi ég endurtaka það að við erum tilbúin að hliðra til á mælendaskrá þannig að við getum fengið eitthvað af þessum hæstv. ráðherrum hingað til að tjá sig um málið. Ég hefði mikinn áhuga á að heyra í hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra um hvað þeir telji sig geta gert við tekjuskatta rúmlega 79 þúsund Íslendinga sem fara eingöngu í það að greiða vextina af Icesave. Það er verið að skera niður í heilbrigðis- og velferðarmálum. Tekjuskattur 79 þúsund manna fer í vextina af Icesave og ekkert annað. Það mætti nýta þá peninga víða annars staðar og mér þykir sárgrætilegt að viðkomandi ráðherrar sem ég nefndi áðan vilji ekki tjá sig um hvað þeim finnst um það mál.