138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér finnst ágætt að vinna á nóttunni og þannig er mál með vexti að ég er þjálfaður í því af hæstv. fjármálaráðherra, hæstv. forsætisráðherra og hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Þeir þjálfuðu mig upp í þessu í mörg ár, alltaf til 2, 3, 4, 5, 6 á morgnana. En að ríkisstjórnin skuli hafa sett sér einhver fjölskyldumarkmið, það er náttúrlega brandari. Það er brandari, herra forseti, að menn skuli vera að segja að það eigi að lokka ungt fjölskyldufólk til Alþingis. Hvað eru menn að gera hérna? Þeir eru að segja öllu ungu fólki sem er með börn: Ekki verða þingmenn. Hér er nefnilega afskaplega ófjölskylduvænn vinnustaður. (Gripið fram í: Nei.) Það er allt í lagi fyrir mig. Ég er ekki að kvarta. En ég get ekki ímyndað mér hvernig það er að vera með börn heima og þurfa að hanga hérna niðri á þingi nótt eftir nótt og sjá ekki börnin nema á myndum.