138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni fyrir hversu þaulsetinn hann er að fylgjast með umræðunni hér, það ber að virða það af hans hálfu sem stjórnarþingmanns að sýna henni þetta mikinn áhuga. Ég sakna þess þó, frú forseti, að stjórnarþingmenn skuli ekki taka meiri þátt í umræðunni, því að það kynni e.t.v. að varpa betra ljósi á málið og hugsanlega verða til þess að eitthvað nýtt kæmi fram. Það lá í orðum hv. þingmanns að það vantaði eitthvað upp á það en um það erum við klárlega ósammála, frú forseti.

Í Morgunblaðinu í morgun, held ég að það hafi verið, birtist grein eftir þá Lárus L. Blöndal, Sigurð Líndal og Stefán Má Stefánsson, sem verða, frú forseti, að teljast einhverjir af okkar mikilhæfustu lögmönnum þegar fjallað er um alþjóðamál og stjórnarskrá, svo ekki sé rætt um aðra hluti. Fram hefur komið í umræðunni hjá þeim fjárlaganefndarmönnum sem hér hafa talað, a.m.k. stjórnarandstöðuþingmönnunum, að það liggur alls ekki fyrir hver er túlkun þessara lögmanna eða lögspekinga sem fengu stuttan tíma til að fjalla um stjórnarskráratriði þessarar umræðu fyrir fjárlaganefnd. Satt best að segja, frú forseti, vakna fleiri spurningar en að spurningum sé svarað við lestur greinar þeirra þremenninga og er af nógu að taka í þeirri grein. Í sjálfu sér, frú forseti, mundi ég segja að greinin ein og sér væri tilefni til þess að þetta mál yrði geymt í smátíma, alls ekki tekið af dagskránni heldur geymt, og farið mjög vandlega yfir þær athugasemdir sem koma fram í greininni, því að ég fullyrði, frú forseti, að þessir heiðursmenn og fleiri eflaust setja ekki fram slíkar vangaveltur sem þar eru ef ekki er innstæða fyrir þeim.

Það er með öllu ótækt, frú forseti, að við sem alþingismenn — við skrifum undir eið að stjórnarskránni við upphaf starfa okkar á þingi — skulum vera að fjalla hér um eitt stærsta mál Íslandssögunnar hreinlega, vil ég meina, með það hangandi yfir okkur að við gætum hugsanlega verið að brjóta þann eið sem við skrifuðum undir og á ég þar við stjórnarskrána. Þá er ég ekki að tala um, sem ég mun tala um síðar, þær mögulegu hörmungar sem lög þessi eða samningur mun kalla yfir þjóðina.

Fyrir rúmu ári síðan voru sett neyðarlög sem eflaust eru mjög skiljanleg í þeirri atburðarás sem þá var, enda hefur það komið fram hér að stjórnmálaflokkarnir og þeir alþingismenn sem þá sátu á þingi voru sammála um að þetta næði fram að ganga. Hins vegar hafa hlutirnir breyst töluvert mikið á þessu rúma ári, komið hafa fram nýjar upplýsingar, staða þjóðarbúsins hefur skýrst mun betur þó að hún sé í raun mjög óljós, því að eins og bent hefur verið á, frú forseti, stangast svolítið á upplýsingar sem eru að koma frá þeim stofnunum, innlendum og alþjóðlegum, sem gefa álit m.a. á skuldaþoli þjóðarinnar. Verður forvitnilegt að sjá hvort þær upplýsingar taki einhverjum breytingum á næstu dögum eða vikum.

Ég ætla, frú forseti, í ræðu minni að einblína svolítið á stjórnarskrána og grein þeirra þremenninga, því að þar er af nógu að taka eins og ég sagði áðan. Í upphafi greinarinnar er rætt um ýmislegt og m.a. eru reifuð rök fyrir þeim fyrirvörum sem settir voru í ágúst. Síðan segir undir millifyrirsögninni Nýtt frumvarp, með leyfi forseta:

„Sú grundvallarbreyting hefur orðið samkvæmt frumvarpinu að snúið er til baka til þess horfs sem lánasamningarnir voru upphaflega í, þ.e. ábyrgð ríkisins er nú aftur orðin hluti af lánasamningunum og hún orðin skilyrðislaus.“

Skilyrðislaus, frú forseti. Þetta er mat þessara ágætu manna á þeim breytingum sem eru lagðar til við það frumvarp sem nú liggur fyrir að ábyrgðin sé skilyrðislaus, hún er ekki farin út, hún er skilyrðislaus. Þá er það í samræmi við þann samning sem lagður var til grundvallar í sumar og flestir ef ekki allir hafa sagt á Alþingi að hafi verið ómögulegur og lögin sem samþykkt voru í ágúst hafi verið til mikilla bóta. Þetta hafa bæði stjórnarandstöðuþingmenn sagt og þeir fáu stjórnarliðar sem fjallað hafa um málið.

Síðan segir, með leyfi forseta, í greininni:

„Skuldbindingar samkvæmt frumvarpinu eru óljósar og ófyrirsjáanlegar, m.a. vegna þess að ýmis síðari atvik, sem eru engan veginn fjarlæg, geta valdið því að þær muni reynast þungbærari en reiknað var með við undirritun þeirra og jafnvel þannig að þær reynist óyfirstíganlegar með öllu.“

Þetta er í sjálfu sér grundvöllur þess að þessir sérfræðingar okkar hafa efasemdir um að frumvarpið eins og það lítur út í dag, standist stjórnarskrá. Nú kann vel að vera að hægt sé að breyta því frumvarpi sem nú liggur fyrir og gera það þannig úr garði að það standist stjórnarskrána, en þá þarf að vinda sér í að taka þann hluta fyrir með efnislegum hætti í fjárlaganefnd sem fjallar um málið.

Síðar í greininni er fjallað um neyðarlögin og hér er millifyrirsögn, frú forseti, sem heitir einfaldlega Neyðarlögin. Með leyfi forseta, segja þessir ágætu herramenn:

„Nú liggur fyrir að látið verður reyna á neyðarlögin að þessu leyti“ — þ.e. varðandi kröfurnar — „enda gríðarlegir hagsmunir í húfi. Niðurstaðan gæti orðið sú að þessum lagabreytingum yrði vikið til hliðar og/eða að ríkið yrði gert bótaskylt vegna þess tjóns sem almennir kröfuhafar hafi orðið fyrir. Dómstólar skera úr um það að lokum.“

Nú er það svo, frú forseti, að eftir því sem ég best veit eru dómsmál, a.m.k. eitt, í gangi fyrir íslenskum dómstóli þar sem verið er að fjalla um þetta mál. Eftir mínum bestu upplýsingum er það mál í gangi. Í rauninni, frú forseti, hvort sem málarekstur er hafinn eða ekki vitum við að látið verður reyna á þessi lög, eins og þeir þremenningar benda á, og þá væri vitanlega skynsamlegra fyrir Alþingi og framtíð íslensku þjóðarinnar að fenginn yrði botn í það hvort neyðarlögin halda, því að það er alveg ljóst að ef þau verða dæmd ógild eða íslenska ríkið dæmt skaðabótaskylt eða kröfum raðað upp á annan hátt eða hvernig sem það er, er veruleg hætta í því fólgin að við tökum á okkur aukalega þær byrðar sem felast í því að greiða af Icesave-reikningunum eins og frumvarpið gerir í raun ráð fyrir.

Loks er, frú forseti, millifyrirsögnin Íslenska ríkið ábyrgt. Þar er verið að fjalla um mögulega ábyrgð ríkisins á því sem ég ræddi áðan. Hér segir, með leyfi forseta:

„Verði lagabreytingarnar sem áttu (Forseti hringir.) að verja ...“

Frú forseti. Ég næ ekki að ljúka máli mínu og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.