138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:23]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ýmislegt kunnum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði í málþófi en aldrei í sögu Alþingis hefur fundarstjórn forseta verið misnotuð með þeim hætti sem hér hefur gerst, með eilífum deilum á fundarstjórn forseta sem allir hafa staðið sig afar vel í erfiðri stöðu. Og annað sem tekur út yfir allan þjófabálk er að menn skuli fyrir fram vera búnir að ákveða að fara í andsvör án þess að heyra ræður manna. Við stöndum frammi fyrir þeim kaleik, hv. þingmaður, þeirri helmingaskiptareglu sjálfstæðismanna og Framsóknar að þeir skiptu bönkunum upp á milli sín árið 2001 og 2002. (HöskÞ: Vorum við ekki að einkavæða þá?) Við erum að taka eitrið (Gripið fram í.) úr þeim kaleik, það er gersamlega ljóst.

Virðum lýðræðið. Ég virði það að stjórnarandstaðan tali, en að skipuleggja andsvör fyrir fram með tveggja daga eða eins dags fyrirvara við ræðum sem menn hafa ekki heyrt er út í hött. Það á ekkert skylt við lýðræði. Það á heldur ekkert við lýðræði að deila á fundarstjórn forseta skipulega á klukkutíma fresti. Ég ætla þingmönnum fullt málfrelsi, fullt lýðræði, algerlega skilyrðislaust, en að misnota þingskapareglur Alþingis með þeim hætti sem hér hefur gerst í marga daga er fyrir mér óþolandi.