138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:51]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að það er undirskriftasöfnun á netinu, indefence.is held ég að slóðin sé, þar sem skorað er á forseta Íslands að synja þessum lögum. Ég hef því miður ekki það mikla trú á stjórnarflokkunum, hv. þingmaður, að halda að þeir muni taka tillit til þessa hluta sem hv. þingmaður nefndi, um 10% þjóðarinnar, þótt það komi fram í frumvörpum sem eru fyrir þinginu.

Ég velti hins vegar því fyrir mér hvernig hægt sé að réttlæta það að staðfesta þetta frumvarp. Það eru nokkrar ástæður fyrir því, en ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að þjóðin láti í sér heyra um þetta frumvarp, hvort sem hún fær að koma að því á endanum eða ekki, því að þetta snertir framtíð hennar fyrst og fremst.