138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:02]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Margítrekað hefur verið kallað eftir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra undanfarna daga í þessum umræðum. Það vekur nokkra furðu að hann skuli ekki sjá sér með neinu móti fært að koma til fundarins og eiga orðastað við þingmenn. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur nánast ekkert tekið þátt í þeim umræðum sem farið hafa fram. Í kvöld hefur töluvert verið rætt um þær fréttir sem borist hafa af fundum stjórnarandstöðunnar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og þar var nokkuð annar tónn en var í svari hæstv. fjármálaráðherra í morgun til hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fer með efnahagsmál þjóðarinnar, hvorki meira né minna, og einhver hefði nú haldið að þetta mál væri sérstaklega afdrifaríkt fyrir íslenskan efnahag. Mér finnst því óumflýjanlegt að hæstv. ráðherra komi til fundarins og taki þátt í umræðum um þetta mikilvæga og mjög svo erfiða mál fyrir íslenska þjóð.