138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:51]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir kröftuga og efnismikla ræðu. Hann hefur áður fjallað um það sem Eva Joly hefur bent okkur á. Ég skrifaði grein í Morgunblaðið 15. ágúst þar sem ég vitnaði einmitt í þessi orð hennar. Hún skrifaði greinar að mig minnir í þrjú dagblöð í jafnmörgum löndum. Þar ritaði ég að glöggt væri gests augað, því að hún var raunverulega að koma þeim skilaboðum áleiðis til íslensku þjóðarinnar að yfir vofði greiðslufall.

Það er sérkennilegt að standa hér á Alþingi í dag og fá nýjar upplýsingar af skuldsetningu þjóðarbúsins. Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komu hingað og tóku formenn stjórnarandstöðunnar tali. Þess vegna set ég þetta í stóra samhengið og bendi á að það þurfti að flýta því mjög að samþykkja þetta frumvarp sem nú liggur fyrir fyrir miðnætti 30. nóvember.

Svo mikill var asinn að hér voru kvöldfundir. En eins og ég benti svo oft á gerðist ekkert þennan dag og við erum enn að ræða þetta frumvarp því að það eru í gildi lög í landinu, lög sem Alþingi setti 28. ágúst síðastliðinn og forseti staðfesti með undirskrift sinni þann 2. september.

Getur verið að mati þingmannsins að þessi asi hafi verið með þeim hætti að sú leyndarríkisstjórn sem nú er við völd í landinu hafi ætlað að leyna þessum upplýsingum fyrir þingi og þjóð, láta Alþingi samþykkja Icesave-samningana og koma svo með fréttirnar nokkrum dögum síðar af versnandi skuldastöðu þjóðarinnar? Sér þingmaðurinn samhengið þarna á milli?