138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ræða hv. þingmanns var dæmigerð málþófsræða en þó af betri sortinni. Hv. þingmaður talar fallega og sköruglega en hvar eru hinar nýju upplýsingar í þessari ræðu sem hv. þingmenn og málþófsmenn halda fram að þeir séu stöðugt að dæla inn í þingið? Það var ekkert nýtt í þessu. Það var bara sami gamli misskilningurinn og sömu gömlu tuggurnar um að hér væri allt að fara til fjandans. Eins og aðrir þingmenn Framsóknarflokksins taldi hv. þingmaður að það væri algerlega ómögulegt að Íslendingar gætu staðið undir því sem hún kallaði drápsklyfjar.

Ég spyr hv. þingmann: Ber hún ekki traust til Seðlabankans? Hv. þingmaður hefur m.a., eða a.m.k. sumir þingmenn Framsóknarflokksins, hrósað sér af því að hafa sem fulltrúa síns flokks frægan og virtan erlendan sérfræðing til að sitja í stjórn bankans. Treystir hún honum ekki? Þessi Seðlabanki hefur sagt, og lagt fram útreikninga sem styðja það, að íslenska þjóðin getur auðveldlega staðið undir því sem hv. þingmaður kallar drápsklyfjar.

Ef hv. þingmaður gerði það sem hún sakar þingmenn stjórnarliðsins um að gera ekki, þ.e. ef hún hefði setið í salnum og hlustað á það sem ýmsir hafa verið að ræða hér, þá gæti hún dregið annan vott til þessa. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur ekki verið talinn með allra bjartsýnustu mönnum þegar kemur að hagþróun. Hann sagði þó í dag að fram undan væru tímar þar sem Íslendingar mundu rífa sig upp úr þessum vanda og þeir gætu að sjálfsögðu staðið undir Icesave. Svona rekur sig hvað á annars horn í orðum stjórnarandstöðunnar.

Hv. þingmaður talaði um hið rosalega mikla skuldahlutfall þjóðarinnar. Les hv. þingmaður ekki blöðin? Sá hann ekki greint frá því í fjölmiðlum í gær að á næsta ári var sýnt fram á að nettóskuldahlutfall þjóðarinnar miðað við landsframleiðslu er 35%, miklu minna en margra annarra.