138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel það eitt mikilvægasta verkefni okkar hér að leita sátta í þinginu eins og málum er komið þessa stundina og ekki síður að reyna að taka saman höndum um að leiða þessa þjóð saman í átt til betri tíma. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt verkefni. Ég tel að þau vinnubrögð sem ríkisstjórnarflokkarnir viðhafa hér í þinginu séu alls ekki til þess fallin að það takist, sú hálfgerða lítilsvirðing sem hv. þingmenn stjórnarliðsins sýna þessum umræðum þegar verið er að ræða eitt mikilvægasta mál Íslandssögunnar. Hér ræðum við um vafaatriði eins og það hvort þetta frumvarp standist stjórnarskrá. Og eins og staðan er í dag hefur enginn þingmaður stjórnarliðsins hér í þingsalnum, ekki nokkur einasti maður, áhuga á því að ræða stjórnarskrána eða það með hvaða rökum stjórnarliðar ætla sér að koma þessu máli í gegnum þingið. Áhuginn er nú ekki meiri en það á því að ná einhverri sátt og vígstöðu í þessu máli. Það er gríðarlega sorglegt.

Ég er hálfdöpur yfir því að sú vinna sem fór fram í sumar þegar þingmenn nánast allra flokka settust niður til að skrifa fyrirvarana við upphaflega ríkisábyrgðarfrumvarpið var öll unnin fyrir gýg. Og þeim vinnubrögðum sem allir þingmenn mærðu og vildu eigna sér — allir vildu Lilju kveðið hafa — er búið að henda út um gluggann. Hvenær á að skapa hér traust til þess að gera þetta aftur?

Ég segi enn og aftur við þá hv. þingmenn sem tóku þátt í því: Þeir hv. þingmenn verða að koma hingað, setjast niður með okkur og fara yfir þetta mál enn og aftur og leita annarra leiða en þeirra sem hér eru lagðar á borð. Þessi leið er ekki í boði. (Forseti hringir.)