Rannsókn samgönguslysa

Föstudaginn 04. desember 2009, kl. 21:55:37 (0)


138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

rannsókn samgönguslysa.

279. mál
[21:55]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem við ræðum hér virðist í eðli sínu hafa tvenns konar tilgang. Í fyrsta lagi, eins og fram kemur í kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins, sem byggir á kostnaðarmati sem samgönguráðuneytið lét vinna, er gert ráð fyrir að með sameiningu þessara rannsóknarnefnda náist fram hagræðing sem geri það að verkum að framlög vegna þessara verkefna lækki um 8% milli fjárlaga 2009 og 2010. Síðan er það það atriði, sem ég tel að hljóti að vera meginmálið á bak við þessa hugsun, sem er það sem fram kemur í athugasemd við lagafrumvarpið, að ætlunin sé að reyna að ná fram meiri og betri faglegri vinnu. Maður nemur fyrst og fremst staðar við þetta síðara nú í upphafi. Þetta er mál af því tagi að nauðsynlegt er að það fái mjög vandaða meðferð í samgöngunefnd Alþingis. Þetta eru eðli málsins samkvæmt mjög viðkvæm mál og gífurlega mikilvægt að þeim sé sinnt eins vel og mögulegt er. Ég vil því beina sjónum mínum í upphafi að þessari spurningu um hina faglegu vinnu.

Nú vitum við að vel hefur verið staðið að þessum málum hér á landi, bæði á sviði flugöryggis og umferðarslysa og síðast en ekki síst sjóslysa þar sem ég þekki kannski hvað best til. Eftir því sem mér hefur skilist hefur þessari vinnu fleygt fram og hún hefur verið að batna. Maður sér það t.d. á þeirri umfjöllun sem orðið hefur um umferðarslysin að þar eru upplýsingar miklu betri en þær virtust vera áður, án þess að ég sé að gera lítið úr því sem áður hefur verið gert, aðstæður gera það að verkum að menn hafa haft möguleika til að bæta þennan þátt. Það sama hygg ég að eigi við um flugslysin. Eitt er alla vega ljóst að þeim þætti sem snýr að sjóslysunum sjálfum hefur fleygt mjög fram. Maður hefur orðið var við það í viðbrögðum sjómanna varðandi starf sjóslysanefndarinnar að menn hafa verið býsna ánægðir með það starf. Til að mynda hefur verið unninn upp langur hali af skýrslum sem ekki hafa legið fyrir og áfram mætti telja.

Þegar maður horfir á þetta þessum augum virðist ekki blasa við að neinir sérstakir faglegir vankantar hafi verið á þeirri starfsemi sem verið hefur í þessum þremur nefndum og starfsstöðvum þeirra á undanförnum árum. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. ráðherra strax í upphafi hvað knýi á um það, af þessum faglegu ástæðum, að fara í þessa dramatísku uppstokkun á umræddri starfsemi sem ég veit ekki annað en hafi gefist vel eins og hún hefur farið fram. Með því er ég ekki að segja að útiloka eigi það fyrir fram að skoða möguleika á sameiningu þessarar starfsemi. Það kunna að vera fyrir því rök og það eru þeir þættir sem ég hygg að samgöngunefnd Alþingis muni fara ofan í með sérfræðingum og eftir að hafa fengið umsagnir þar til bærra aðila.

Af því að ég vík aðeins að þessum faglega þætti þá er því ekki að neita að viðbrögð við þessum hugmyndum sem hæstv. ráðherra hefur kynnt fyrir alllöngu hafa verið blendin. Eins og hæstv. ráðherra greindi frá gerði hann það þannig að hann lagði frumvarpið fram, kynnti það á netinu. Það eru út af fyrir sig jákvæð vinnubrögð, sérstaklega í máli eins og þessu sem varðar marga og hefur á sér ýmsar hliðar sem blasa kannski ekki við mönnum við fyrstu sýn. Ég vil út af fyrir sig fagna því að hæstv. ráðherra skuli hafa haft slík vinnubrögð að skoða þessi mál þannig að sem flestir gætu haft aðgang að þeim og haft möguleika á áhrifum við undirbúning málsins sjálfs. En þar hafa einmitt komið fram, m.a. frá flugmönnum, ýmsar athugasemdir við málið. Í Morgunblaðinu laugardaginn 3. október sl. er viðtal við formann Félags íslenskra atvinnuflugmanna sem kvartar undan því að í frumvarpinu sé undirliggjandi refsitónn, eins og hann segir, og það sé í sjálfu sér stór breyting. Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvaða skoðun hann hafi á þessum sjónarmiðum, hvort með frumvarpinu sé vikið af leið frá því sem verið hefur og verið að slá nýjan tón, refsitón.

Formaður atvinnuflugmanna, Jóhannes Bjarni Guðmundsson, segir jafnframt að í gildandi lögum sé grunntónninn fyrst og fremst sá að upplýsa orsök slysanna til að læra af reynslunni og forðast frekari slys en ekki beina sök í ákveðna átt, að Félag íslenskra atvinnuflugmanna telji að með þessu frumvarpi sé verið að fjarlægjast regluverk nágrannalandanna með breytingunni. Hann áréttar það líka að mikilvægt sé að rétt niðurstaða fáist um orsök slysanna en til að svo geti orðið þurfi flugmenn að geta treyst rannsóknarnefndinni án ótta við að það sem þeir segi verði notað gegn þeim og þeir sakfelli sjálfa sig með samstarfsviljanum. Við þekkjum að þetta er þáttur sem oft kemur upp í málum eins og þessum. Síðast en ekki síst kvarta flugmennirnir undan því að lítið samráð hafi verið haft við þá um þetta mál. Þeir segjast hafa sent umsögn í apríl en ekkert heyrt af málinu fyrr en það kom upp í fjölmiðlum á lokastigi í ráðuneytinu og tilkynnt að leggja ætti það fyrir Alþingi von bráðar. Það er auðvitað mjög slæmt ef svo er. Út af fyrir sig er lofsvert að kynna málið á vef ráðuneytisins en það breytir því ekki að hið formlega samráð hlýtur að eiga sér stað við þá sem eru beinir hagsmunaaðilar í þessum efnum. Í þessu sambandi vísa ég til flugmanna og flugrekstraraðila. Varðandi það sem snýr að sjóslysum hljóta menn að horfa til sjónarmiða sjómanna, útvegsmanna, björgunarmanna o.s.frv., sem þekkja þessi mál allra manna best og hafa af því mikla hagsmuni.

Þessi mál voru nokkuð til umræðu fyrir fáeinum dögum eða vikum þegar ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um staðsetningu þess hluta starfseminnar sem hér er verið að áætla að setja á laggirnar, sú starfsemi hefur farið fram í Stykkishólmi á undanförnum árum og hefur satt að segja tekist mjög vel. Eins og oft er þegar slík starfsemi hefur verið flutt út á land þá nýtur hún mikils stuðnings nærsamfélagsins, samfélagsins sjálfs. Það hefur m.a. orðið þess valdandi að tekist hefur að búa þar til mjög góðan ramma. Þar eru ákaflega færir menn að störfum og í sjóslysanefndinni eru bæði snjallir menn og færir og áhugasamir um verk sitt. Ég neita því ekki að ég hef miklar áhyggjur af því hvernig þessum þætti málsins mun reiða af við áform hæstv. ráðherra um að sameina þessa starfsemi.

Ég spurði hæstv. ráðherra um þetta mál út frá þessum byggðarlega sjónarhóli sem okkur hæstv. ráðherra er báðum mjög tamt að horfa af þegar við lítum á mál sem lögð eru fyrir Alþingi. Ég get ekki neitað því að svör hæstv. ráðherra ollu mér vonbrigðum. Ég spurði mjög ákveðið og beint hvort ætlunin væri að starfrækja áfram þá starfsemi sem nú fer fram innan vébanda rannsóknarnefndar sjóslysa í Stykkishólmi, hvort ætlunin væri að starfrækja þetta áfram þar fyrir vestan eða hvort hugmyndin væri sú að færa þetta til. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki beint en sagði að eðli málsins samkvæmt teldi hann að þessi starfsemi, þ.e. höfuðstarfsemi hinnar nýju stofnunar, færi fram á höfuðborgarsvæðinu. Ég er ekki endilega viss um að þetta sé alveg rétt hjá hæstv. ráðherra en látum það liggja á milli hluta. Mitt áhyggjuefni var ekki síst það hvort hæstv. ráðherra væri með frumvarpinu að veikja þá starfsemi sem þegar er til staðar vestur í Stykkishólmi. Í sjálfu sér var ég ekki að knýja á um það hvort hæstv. ráðherra ætlaði sér að efla hana. Þó spurði ég hvort til greina kæmi að hans mati að höfuðstöðvar starfseminnar yrðu utan höfuðborgarsvæðisins. Því svaraði hann afdráttarlaust neitandi en svar hæstv. ráðherra varðandi það hvort þetta mundi verða til þess að veikja eða draga úr starfseminni sem nú fer fram í Stykkishólmi olli mér vonbrigðum. Nú spyr ég hæstv. ráðherra mjög beint aftur: Hefur ráðherra, t.d. eftir að við áttum þessi orðaskipti, skoðað þessi mál betur? Hefur hæstv. ráðherra velt því fyrir sér hvort hægt verði að starfrækja þessa starfsemi með þeim hætti að a.m.k. sá þáttur sem nú er unnið að í Stykkishólmi verði unninn þar áfram í stað þess að flytja þessi verkefni til? Það er mikið í húfi. Mönnum finnst þetta kannski ekki vera mörg störf sem horfa á þessi mál frá sjónarhóli stærri byggðarlaga en við hæstv. ráðherra, sem komum úr minni byggðarlögum, gerum okkur báðir ákaflega vel grein fyrir byggðarlegri þýðingu þessa máls. Ég trúi því ekki að það geti orðið til að veikja hinn faglega þátt málsins að búa þannig um hnútana að hluti af þessari starfsemi, sá hluti starfseminnar a.m.k., eða ígildi hans, sem nú fer fram vestur í Stykkishólmi, geti farið þar fram áfram.

Eftir að þessi orðaskipti okkar hæstv. ráðherra áttu sér stað, með þátttöku ýmissa annarra þingmanna Norðvesturkjördæmis, sendi bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar frá sér bókun þann 26. nóvember sl. þar sem athygli er vakin á þessu máli. Þeir vitna í svar hæstv. ráðherra og vitna í þau orð hans að hann telji að ekki sé hægt að rífa það fagfólk sem nú vinnur við þessi fjölþættu störf, varðandi rannsóknarnefnd sjóslysa, flugslysa og umferðarmála, upp með rótum og færa út á land. Allt eins má spyrja hvort hægt sé að rífa þá starfsemi sem nú fer fram vestur í Stykkishólmi upp með rótum og færa suður til Reykjavíkur. Ég vil vitna í bókun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar, með leyfi virðulegs forseta:

„Í Stykkishólmi er rannsóknarnefnd sjóslysa og bak við þau störf er fagfólk. Í svari ráðherrans kemur fram að rífa ekki upp með rótum það fagfólk sem er starfandi við umferðar- og flugslysanefnd í Reykjavík. Það hlýtur að gilda það sama um það fagfólk sem starfar við sjóslysanefnd í Stykkishólmi, að það verði ekki rifið upp með rótum og flutt til Reykjavíkur. Ríkisstjórnin og allra síst ráðherra sveitarstjórnarmála getur ekki gert upp á milli fólks eftir búsetu. Það orkar einnig tvímælis að á vegum ráðuneyta séu nefndir er vinni að tillögum að flutningi opinberra starfa út á land á sama tíma og ráðherra flytur störf utan af landi til höfuðborgarinnar. Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar hefur áður skorað á ríkisstjórn Íslands, og beinir þeirri áskorun nú sérstaklega til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, að hafa sanngirni að leiðarljósi og gæta þess að opinberum störfum verði ekki fækkað á landsbyggðinni. Í það minnsta að hlutfallsleg fækkun opinberra starfa á landsbyggðinni verði ekki umfram fækkun opinberra starfa á höfuðborgarsvæðinu í hlutfalli við íbúafjölda. Bæjarstjórnin þakkar dómsmálaráðherra, Rögnu Árnadóttur, fyrir opna umræðu og samstarf við sveitarfélög varðandi hugmyndir um breytingar á skipulagi sýslumanns- og lögreglustjóraembætta. Slík vinnubrögð eiga að vera öðrum ráðuneytum til fyrirmyndar og eftirbreytni.“

Ég hef í sjálfu sér ekki miklu við þennan þátt málsins að bæta en árétta það sjónarmið mitt að ég tel að ekki eigi að koma til greina að rýra það starf eða veikja sem nú fer fram með svo ágætum hætti í Stykkishólmi. Ég skora á hæstv. ráðherra að ganga þannig frá þessu máli að það verði ekki til að veikja þá starfsemi. Ég tel æskilegast að kveðið verði á um þetta mál sérstaklega í lögum verði það niðurstaða Alþingis að samþykkja þetta frumvarp.

Að lokum vil ég beina spurningu til hæstv. samgönguráðherra, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála — þetta eru að verða svo löng orð þessi ráðherraheiti að maður verður nánast sakaður um málþóf að taka sér þau í munn. Gert er ráð fyrir því að þessi lög taki gildi 1. júlí 2010. Enn fremur er gert ráð fyrir því, í ákvæði til bráðabirgða, að ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eigi ekki að gilda um störf sem ráðið er í eftir þessu ákvæði. Nú þekki ég þessi mál nokkuð af reynslu, m.a. frá þeim tíma sem ég var sjálfur formaður samgöngunefndar Alþingis, þegar verið var að formbreyta ýmsum stofnunum. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvað þetta þýði. Hvað þýðir þetta fyrir réttarstöðu starfsmanna? Hvað þýðir þetta fyrir lífeyrisþátt starfsmanna o.s.frv.? Ég held að það væri ákaflega gott í þessari umræðu ef hægt væri að upplýsa það en ella hlýtur það að koma til álita og umræðna þegar málið kemur fyrir samgöngunefnd Alþingis.