138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. En mér hefur fundist hafa legið hér í loftinu, við alla þessa umræðu, við alla meðferð þessa máls hér, ákveðinn pirringur af hálfu ríkisstjórnarinnar yfir því að við þurfum að hanga yfir þessu — hanga yfir þessu máli. Þetta er gríðarlega furðulegt. En það virðist vera svo að Bretar og Hollendingar hafi ekki viljað fá slíka sendingu frá Alþingi Íslendinga sem þeir fengu í sumar, að við ætluðum okkur að hafa áhrif á það hvernig þetta mál endar. Ég tel það gríðarlega alvarlegan hlut að ríkisstjórnarflokkarnir líti svo á að Alþingi sé einhver afgreiðslustofnun. Því erum við ekki sammála, ekki við þingmenn stjórnarliðsins. Og ég skora enn og aftur á hina hugrökku þingmenn stjórnarliða sem þorðu í sumar að standa upp og mótmæla gjörðum ríkisstjórnarinnar, taka málið aftur í skoðun, fara yfir það og reyna að laga þá herfilegu samninga sem ríkisstjórnin er búin að skrifa upp á fyrir hönd Íslands.

Ég tel að það sé ekki of seint, háttvirtir þingmenn, ég sé að sumir þessara hugrökku þingmanna sitja hér og hlýða á mál mitt, það er ekki of seint. Við skulum taka málið í okkar eigin hendur, háttvirtir þingmenn, og laga þetta mál ríkisstjórnarinnar.