Ráðstafanir í skattamálum

Laugardaginn 05. desember 2009, kl. 14:39:45 (0)


138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það væri til lítils að leita annarra leiða við skattlagningu ef það væri bara til þess að auka hana frá því sem ætlað er. Við höfum gert áætlun um það til nokkurra ára hvernig brúa eigi hallann í rekstri ríkissjóðs og þar er gert ráð fyrir ákveðinni skiptingu, annars vegar á milli tekjuhliðarinnar og hins vegar gjaldahliðarinnar, þannig að tekjuhliðin eigi að bera um 45% af því sem brúa þarf en gjaldahliðin 55% eða meiri hlutann.

Tekjuhliðin tekur stærri hlut framan af tímabilinu vegna þess að við eigum á tekjuhliðinni auðveldara með að taka ákvarðanir sem hafa áhrif þegar í stað en ákvarðanir um sparnað koma fram á lengri tíma. Þess vegna mundi tekjuöflun í tengslum við skattlagningu séreignarsparnaðar draga úr þörf fyrir aðra skattlagningu. Ég tel þó ekki nauðsynlega að það eigi við um þær fyrirætlanir sem eru um skattbreytingar á næsta ári vegna þess að þær eru fyrst og fremst til þess að styrkja sjálfan grundvöll tekjuöflunar ríkissjóðs, en tekjuöflunin í séreignarsjóðunum er auðvitað aðgerð sem skilar sér einu sinni, og þetta er blanda af því annars vegar að brúa bilið á þessum þremur árum og hins vegar að því að styrkja tekjugrundvöll ríkissjóðs til framtíðar. En það mundi sannarlega létta á tekjuöflunarþörfinni yfir tímabilið, næstu þrjú árin, ef hægt væri að sækja meira fé en áætlað hefur verið í til að mynda einhvers konar breytingar á skattlagningu séreignarsparnaðar.