Ráðstafanir í skattamálum

Laugardaginn 05. desember 2009, kl. 15:54:15 (0)


138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil í fyrsta lagi þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur orðið, hún er mjög málefnaleg og gagnleg og við höfum tekið niður ýmsar athugasemdir og spurningar sem eðlilega hafa vaknað. Það er allt rétt sem sagt er að hér er um býsna viðamiklar breytingar að ræða. En það byggist einfaldlega á því mati okkar að núverandi og óbreytt fyrirkomulag skattlagningar ráði ekki við það verkefni að skila ríkissjóði umtalsvert auknum tekjum öðruvísi en að farið sé í verulegar breytingar, bæði hvað varðar hina hefðbundnu skattstofna sem og í því að reyna að afla nýrra og dreifa þessum byrðum á fleiri aðila, eins og hér er sannarlega gert því til sögunnar koma nýir skattstofnar og byrðunum er dreift á fleiri en hafa kannski lagt sitt af mörkum að undanförnu.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson talaði hér fyrstur og nefndi það sem mér fannst ánægjulegt að heyra að í aðalatriðum gerðu sjálfstæðismenn og stjórnarandstaðan ekki athugasemdir við markmið á útgjaldahlið, þann sparnað sem þar er reynt að ná fram, en ágreiningur væri frekar um tekjuöflunarhliðina og væri þá spurning um aðferðir í þeim efnum. Það er engu að síður mikilvægt að hafa í huga að ekki virðist vera ágreiningur uppi um það verkefni sem þarf að ráðast í, að ná niður halla ríkissjóðs, heldur fyrst og fremst hvernig eigi að svo miklu leyti sem það er gert að afla tekna á tekjuhlið til að brúa bilið úr báðum áttum, með sparnaði og niðurskurði annars vegar og tekjuöflun hins vegar.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson nefndi aðeins greinargerð frumvarpsins um tekjuöflun og þá fræðilegu og faglegu umfjöllun sem þar er að finna um mismunandi leiðir og kenningar og áhrif ólíkra aðferða. Greinargerðin er byggð á viðurkenndum kenningum og reiknilíkönum sem sýna tiltekna hluti eins og hvernig það að taka skatttekjur og endurráðstafa þeim í gegnum samneysluna hefur jákvæð áhrif, a.m.k. tímabundið, í hagvaxtarlegu tilliti og hvað varðar eftirspurn í samfélaginu. Þetta má m.a. skýra með þeirri augljósu staðreynd að hluti teknanna fer í sparnað en allt sem ríkið tekur til sín í sköttum við þessar aðstæður, sem eru þegar halli er á ríkissjóði og slaki í hagkerfinu, fer til eftirspurnarhvetjandi ráðstöfunar úti í samfélaginu. Ég held að þessu verði ekki á móti mælt. Það verður þá að hafa það ef ákveðnar fræðilegar niðurstöður eða vangaveltur í greinargerð fara eitthvað í taugarnar á sjálfstæðismönnum, kannski vegna þess að það passar ekki alveg inn í stundum dálítið staðlaðar kenningar um að alltaf hljóti að vera neikvætt að afla ríkissjóði og sveitarfélögum tekna í þágu samneyslunnar.

Varðandi þá aðstoð sem sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafa boðið fram á sviði skattamála þá fer fjarri að slíkt hafi verið afþakkað, það er einfaldlega rangt. Það hefur a.m.k. ekki með mínu leyfi verið afþökkuð nein aðstoð frá þeim og við höfum stuðst við vinnu sem sérfræðingahópar á þeirra vegum hafa unnið á fjölmörgum sviðum og fleiri eru væntanlegir á næstunni. A.m.k. þrjár ef ekki fjórar sendinefndir hafa komið hingað frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, dvalið í viku eða tíu daga og farið yfir ákveðna þætti svo sem framkvæmd fjárlaga og eftirfylgni, skuldastýringarstefnu og aðferðir og skilað skýrslum sem eru gagnleg plögg, sem við höfum til hliðsjónar. Þar fyrir utan eru sérfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins einmitt á þessu sviði ríkisfjármála kannski nánustu samstarfsmennirnir og þeir sem við erum oftast í samskiptum við, þar á meðal deildarstjóri þeirra mála hvað Ísland varðar, sem snúa að ríkisfjármálunum, tekjuöflun og útgjöldum, og hefur komið hingað oftar en einu sinni, bæði með formlegum sendinefndum og þar fyrir utan. Ég hygg hins vegar að það sé rétt að enn hafi ekki komið sérstök sendinefnd á sviði skattahliðarinnar en vel gæti verið að einmitt ein slík væri væntanleg einhvern tíma á fyrri hluta næsta árs. Það þýðir ekki að við höfum ekki verið í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um þessa hluti. En auðvitað er það einu sinni þannig að íslenskir skattaðilar þekkja íslenska skattkerfið best og mestrar sérfræðiþekkingar er að leita hjá fjármálaráðuneytinu, ríkisskattstjóra og öðrum slíkum aðilum og því verður varla á móti mælt að á því hljótum við að þurfa að byggja.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi þær viðamiklu skattkerfisbreytingar sem hér er ráðist í og ég hef að hluta til svarað því hvers vegna þær eru niðurstaða okkar. Hann spurði: Var ekki hægt að hækka álagsstöður í óbreyttu skattkerfi og ná tekjumarkmiðinu þannig? Svar okkar er nei. Núverandi skattkerfi ræður óbreytt mjög illa við það verkefni að skýra frá þeim tekjuauka og ég bendi á þær umtalsverðu tekjur sem koma inn með nýjum ráðstöfunum af ýmsu tagi, en svo kemur auðvitað annað til og best að ræða það eins og það er. Þetta er líka spurning um áherslur og pólitík, um dreifingu byrðanna og hvernig við sem berum ábyrgð á þessu hverju sinni teljum að slíkt sé best gert og réttlæti og sanngirni best náð fram. Þar er stærsta einstaka kerfisbreytingin auðvitað sú að þrepaskipta tekjuskatti til að ná fram mýkri kúrfu hvað varðar skattbyrðina þannig að hægt sé að hlífa launum upp að 270 þús. kr. við skatttengingu og þyngja síðan byrðarnar jafnt og þétt eftir því sem tekjur einstaklinga eða heimila aukast.

Nokkrir hafa spurt um útkomuna fyrir heimilin, hvaða beinu áhrif þetta hafi og hvort það hafi verið skoðað. Já, að sjálfsögðu og ég vísa í dæmi sem fylgja greinargerð meginfrumvarpsins í þeim efnum þar sem tekjuhópar, bæði einstaklingar og fjölskyldur eru bornir saman og reiknuð út áhrifin. Ég hef sjálfur skoðað allmörg dæmi og það er einfaldlega þannig að skattbyrðin fer að aukast þegar komið er upp í millitekjur og vex svo eftir það en þó þannig að mjög tekjuhá heimili verða að hámarki fyrir kannski um 3% þyngingu skattbyrði miðað við heildartekjur og mjög algengt er að í millitekjuhópum og efri millitekjuhópum vaxi skattbyrðin á bilinu 1–1,5%, kannski 2% af heildartekjum. Er það ekki ásættanlegt? Er það mjög mikið? Það gladdi mig mjög um daginn þegar ég fékk eitt af fjölmörgum bréfum þar sem ung fjölskylda hafði tekið þær tillögur sem kynntar höfðu verið og reiknað út útkomu sína. Þar aflaði annar aðilinn, reyndar eiginkonan í þessu tilviki, meginhluta teknanna og segja má að sú fjölskylda hafi haft millitekjur, kannski á milli 700 þús. kr. og 1 millj. á mánuði, og niðurstaðan kom nákvæmlega rétt út hjá þessari glöggu manneskju að skattbyrði þess heimilis ykist um 2–2,5% af heildartekjum og það fannst viðkomandi sanngjarnt og sagði: Þetta ráðum við vel við, þetta finnst okkur sanngjarnt. Mikið væri gaman að sem flestir gætu tekið þessu svona að vera tilbúnir til að leggja sitt af mörkum, enda sé það hóflegt og sanngjarnt miðað við þær aðstæður og það verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Ég verð að segja alveg eins og er að miðað við hversu umfangsmikið þetta er og viðamiklar ráðstafanir þá hefur mér fundist umhverfið, þjóðin, taka þessu af mikilli yfirvegun og skynsemi og það hefur ekki orðið það fjaðrafok sem einhverjir héldu að yrði, þeir sem höfðu undirbúið samviskusamlega vikurnar áður en þetta var kynnt að hinn hroðalegi skattmann allra tíma væri nú mættur á sviðið og fólk mundi heldur betur fá að finna fyrir því. Þetta sýnir enn og aftur hversu sterk þjóðin er og skynsöm. Það átta sig allir á því að við verðum að leggja tímabundið dálítið á okkur á meðan við göngum í gegnum erfiðasta tímann. Þetta verða tvö, þrjú ár, vonandi ekki mikið meira þangað til dæmið fer að snúast við, einnig í þeim skilningi að við getum farið að milda ýmsar aðgerðir bæði á sviði niðurskurðar eða sparnaðar og tekjuöflunar sem nú er tímabundið óhjákvæmilegt að ráðast í og þeim mun fleiri sem nálgast þetta svona, þeim mun betra.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson spurði einnig um samsköttun og áhrif auðlegðarskattsins og af hverju tekjumörk væru 90 millj. kr. fyrir einstaklinga og 120 millj. kr. fyrir fjölskyldur. Það er einfaldlega vegna þess að þegar komið er upp í svona háar tölur og háar eignir er fjölskylda auðvitað mun betur sett en einstaklingur og það er ekki ástæða til að hafa þarna tvöföld tekjumörk þegar hjón eiga í hlut. Það er einfaldlega okkar afstaða. Það sama gildir um millifæranleikann þegar tekjur lenda í efsta þrepinu yfir 650 þús. kr. að þá er ekki farið í þetta með sama hætti og þegar gamli hátekjuskatturinn var að það séu algerlega tvöföld tekjumörk í tilviki hjóna eða samskattaðra aðila heldur er farið bil beggja og leyfður ákveðinn millifæranleiki á milli þrepanna, eins og menn geta lesið sér nánar til um í gögnum með frumvarpinu.

Varðandi vísitöluáhrifin sem hv. þingmaður spurði um er reynt að dreifa þeim. Það er ein af ástæðunum fyrir því að virðisaukaskattshækkunin kemur inn í áföngum og að samtals eru vísitöluáhrifin þó ekki meiri en raun ber vitni, eitthvað um 2%, sem dreifist á allnokkur tímabil og nú á tímum, sem betur fer, lækkandi verðbólgu þá eigum við að geta sætt okkur betur við það en auðvitað verður ekki bæði sleppt og haldið. Það er ekki bæði hægt að afla aukinna tekna, allra síst með hækkun óbeinna skatta sem fara beint inn í verðlag, og komast hjá hinu.

Menn verða líka að hafa í huga, eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur reyndar útskýrt mjög vel, að það er misskilningur að í þessum efnum sé einhver grundvallarmunur fyrir fjölskyldurnar á hækkun beinna og óbeinna skatta. Hækkun beinna skatta leiðir einfaldlega til þess að minna verður eftir í buddunni, hækkun óbeinna skatta þýðir að það sem fólk kaupir, það sem fólk ráðstafar tekjunum í fækkar en þar hefur það líka meira val. Breytingar á tekjuskattskerfinu taka mið af þessu. Þar er reynt að hlífa að fullu mikilvægasta einstaka útgjaldaflokki heimilanna við þessar aðstæður, matvælunum. Þar verður engin hækkun þrátt fyrir þá rausnarlegu lækkun sem gripið var til í góðærinu að færa neðra þrep virðisaukaskatts alla leið úr 14% og niður í 7%, sem er eitt lægsta skattþrep í virðisaukaskatti sem þekkist á byggðu bóli. (Gripið fram í.) Mjög margt fylgdi matvælunum þangað niður sem auðvitað hlýtur að orka tvímælis að eigi að sæta svo lágri skattlagningu, ég tala nú ekki um við núverandi aðstæður, eins og þjónusta á veitinga- og kaffihúsum, sem nú er gerð tillaga um að færa aftur upp í 14%, sykraðar vörur, sælgæti og gosdrykkir og annað sem ekki eru sambærilegar nauðsynjavörur í neyslu á heimilum og maturinn.

Hv. þm. Þór Saari nefndi gistináttagjald eða farþegaskatt og ég vil upplýsa að það hefur síður en svo verið afskrifað. Sú nefnd starfar áfram. Ég bind enn vonir við að samtök ferðaþjónustunnar og aðrir aðilar komist að sameiginlegri niðurstöðu um að það verði gott fyrir greinina að fá þar tekjustofn til að ráðstafa við uppbyggingu í þjóðgörðum og fjölsóttum ferðamannastöðum og við erum tilbúin til samkomulags um að ríkið sleppi því alveg að eiga hlutdeild í þeim tekjum. Vissulega var hugmyndin í byrjun að ríkið og atvinnugreinin deildu með sér tekjunum á mesta erfiðleikatímabilinu, en frekar en ekkert mundi ég styðja það að atvinnugreinin ein og sér sæti að einhverjum tekjum sem hún mundi sækja sér þannig að við fengjum fjármagn til að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar og úrbætur sem eru algerlega nauðsynlegar fyrir okkur Íslendinga komi ferðaþjónustan til með að vaxa áfram á næstu árum eins og hún hefur gert að undanförnu. Við munum ekki taka á móti einni milljón ferðamanna innan tiltölulega fárra ára öðruvísi en að ráðast í viðamiklar undirbúningsaðgerðir til að ekki fari illa. Aðrar tekjuöflunarhugmyndir hv. þingmanns eru þekktar eins og að hækka auðlindagjaldið eða veiðileyfagjaldið. Hvort tveggja er gert nú en kannski minna en hv. þm. Þór Saari telur mögulegt.

Hv. þm. Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar, ræddi skattkerfisbreytingarnar og nefndi það sem er rétt að við hyggjum á viðamikla og heildstæðari endurskoðun. Strax í byrjun næsta árs verður sú vinna sett af stað, þar á meðal að skoða möguleikana á því að samþætta í einn breiðan tekjustofn bæði launatekjur og fjármagnstekjur með tilteknum reikniaðferðum þannig að út úr því komi einn prógressífur og sanngjarn skattstigi sem færði þá skattbyrðina með réttlátum hætti á efri hluta tekjubilsins.

Varðandi séreignarsparnaðinn og það sem hér verður nefnt um að fara þá leið, þá nefndi hv. þm. Pétur Blöndal 75 milljarða sem hægt væri að sækja inn í séreignarsparnaðarkerfið á einu bretti og þá þyrfti ekki að hækka aðra skatta í staðinn. Þetta eru í fyrsta lagi einskiptistekjur sem verða bara notaðar einu sinni og eitthvað þarf þá að gera á næsta ári. Í öðru lagi er það þannig að kerfið mundi mjög illa ráða við það á einu bretti ef menn vildu fara í þá breytingu að viðbættum þeim miklu útgreiðslum sem við höfum gert fólki kleift að fá á þessu ári og munum gera á hinu næsta sem eru tugir og aftur tugir milljarða. Menn verða auðvitað að horfa líka á möguleika kerfisins til að ráða við þær breytingar sem talað er um.

Hv. þm. Tryggvi Þór nefndi ýmsar tæknilegar breytingar og kom með spurningar eða ábendingar sem sjálfsagt er að fara yfir og að lokum ræddi hv. þm. Ólöf Nordal nokkur atriði sem ég hef þegar komið inn á að mestu leyti (Forseti hringir.) að ég tel og hef svarað þessu með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem hv. þingmaður spurði um og ég held aðra þá hluti sem þar bar á góma.

Ég þakka svo aftur og enn þá ágætu umræðu sem hér hefur orðið og óska efnahags- og skattanefnd góðs gengis við að glíma við málið. (BJJ: Ekki veitir af.)