138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er alveg sannfærður um að undirliggjandi ástæða er hjá ýmsum þingmönnum sem styðja hæstv. ríkisstjórn í þessu máli. Þá er ég auðvitað fyrst og fremst að hugsa um að hv. þingmenn Samfylkingarinnar leggja miklu meira upp úr væntanlegri ESB-aðild heldur en þessu máli og telja að rétt sé að ögra ekki Evrópusambandinu eða þessum áhrifamiklu þjóðum þar innan dyra til að reyna að greiða fyrir Evrópusambandsaðildinni. Ég er alveg sannfærður um að þetta er undirliggjandi ástæða. Auðvitað hafa menn hvað eftir annað reynt að sverja þetta af sér úr þessum stól en ég verð var við það að þessi ESB-hugsun skýtur upp kollinum af og til í þessu sambandi og leiðir alla vega fram (Forseti hringir.) rökrétta niðurstöðu varðandi þá spurningu sem við spyrjum okkur, hvers vegna menn láti þetta yfir sig ganga í Icesave.