138. löggjafarþing — 40. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[02:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég hef verið að velta því fyrir mér í kvöld, vegna þess hve lítið stjórnarliðar hafa tekið þátt í umræðunni, hvaða afstöðu þeir kynnu að hafa. Eins og ég hef margnefnt sagði hv. þm. Ögmundur Jónasson í hv. efnahags- og skattanefnd — þaðan var málið tekið út í miklu hasti, herra forseti — að hann vildi færa umræðuna yfir í þingsal, þar skyldum við ræða málin. En hann hefur ekki tekið þátt í umræðunni, herra forseti. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur ekki tekið þátt í umræðunni. Þetta er ein allsherjarþögn, þetta er æpandi þögn. Maður veit ekkert hvaða skoðun hv. þingmaður hefur á málinu. Hann var leiðtogi þeirra sem komu á mjög skynsamlegum fyrirvörum í haust og átti góðan þátt í þeim lögum sem voru samþykkt, sérstaklega lagalegu fyrirvörunum, og ber að þakka honum fyrir það. Íslenskri þjóð ber að þakka honum fyrir það, en hann hefur ekki tekið þátt í umræðum síðan.

Ég ætlaði að ræða þátt hæstv. ráðherra, Álfheiðar Ingadóttur, sem hefur aldrei tjáð sig um Icesave, herra forseti, aldrei, hvorki í sumar né núna. Nú er hæstv. ráðherra ekkert sérstaklega feimin við tjá skoðanir sínar og hefur verið mjög iðin við það í gegnum tíðina, frá því að hún kom inn á þing. Hún hefur verið mjög ákveðin í skoðunum og haft miklar skoðanir á hlutunum. Þess vegna furða ég mig á því að hæstv. ráðherra, Álfheiður Ingadóttir, skuli aldrei hafa tjáð sig um Icesave og ég velti því fyrir mér hvað valdi því.

Hún tjáði sig reyndar um Icesave 16. desember sl. og var þá að tala um fjárlögin. Hún segir þá, með leyfi herra forseta:

„Þetta er afurð þess sem ég leyfi mér bara að kalla myrkraverk ríkisstjórnarinnar á undanförnum mánuðum. Allt á bak við þing og þjóð. Þar er ég að vísa til samkomulagsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þar er ég ekki síður að vísa til hnjáliðamýktarinnar gagnvart Evrópusambandinu sem birtist í því að ríkisstjórnin kyngdi kröfum Breta og Hollendinga undir þrýstingi Evrópusambandsins um að standa skil á öllum Icesave-skuldunum. Ég segi öllum Icesave-skuldunum því að vegna þess að svo lengi sem hryðjuverkalögunum er ekki aflétt og svo lengi sem eignir Landsbankans eru kyrrsettar, eignir íslensku bankanna, í Bretlandi er það fyrir mér merki um að Bretarnir muni nota þær eignir til að dekka bilið frá 20 þús. og eitthvað evrum upp í þær 50 þús. evrur sem Bretarnir hafa sjálfir lýst yfir að þeir muni standa mönnum skil á. Ég hef með öðrum orðum, herra forseti, ekki minnstu trú á því að það komi króna frá eignum bankanna í Bretlandi upp í 660 milljarða kr. skuldina.“

Þetta segir hún 16. desember 2008. Eitthvað af þessu gengur ekki alveg eftir enda nokkuð langt um liðið og kannski erfitt að spá fyrir en búið er að aflétta hryðjuverkalögunum, það var gert í haust, og líkur eru á því að eitthvað komi upp í eignirnar en kannski ekki eins mikið og sumir halda. Þann 30. júní 2009 segir hún — ég er að reyna að giska á hvað hún er eiginlega að meina í þessu máli, það er þá nærri mánuði eftir að samkomulagið er undirritað, á mbl.is — það er dálítið skrýtið með stjórnarliða að þeir tjá sig meira í fjölmiðlum úti í bæ en hér í þingsal, sem er óeðlilegt. Ég hefði talið að umræðan um Icesave ætti að eiga sér stað hér á Alþingi.

Þar segir, með leyfi forseta, undir fyrirsögninni „Þjóðin kaus um Icesave í apríl“:

„Nokkuð hitnaði í kolunum á Alþingi í dag þegar þingmenn ræddu störf þingsins, þar á meðal um hugsanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samkomulagið. Hróp og köll heyrðust í þingsalnum þegar Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, sagði að þjóðin hefði meðal annars kosið um Icesave í apríl.“

Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, nú hæstv. ráðherra, segir þar:

„Þar á meðal er Icesave, þar á meðal er núna 9% atvinnuleysi, þar á meðal eru skuldaklafar heimila og fyrirtækja, 500 milljarðar í nýtt bankakerfi. Ég verð að segja að Icesave er ekki stærsta málið af þessum málum í mínum huga. Ég treysti þessari ríkisstjórn og þingheimi til að leiða þetta Icesave-mál til lykta,“ sagði Álfheiður og bætti við að hún teldi ekki nauðsynlegt að bera Icesave-samninginn undir þjóðaratkvæði.“

Hún sagði einnig, og það er dálítið athyglisvert, að það væri rangt haft eftir Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra að Icesave-málið væri of flókið fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Hann hefði sagt að vandi væri að stilla því upp hver hinn valkosturinn ætti að vera.

Nú er það þannig, herra forseti, að sá vandi er nú úr sögunni, það er kominn annar valkostur. Það eru lögin sem við samþykktum í haust. Við getum bara sagt, sérstaklega núna þegar öllum þrýstingi er aflétt í málinu, sérstaklega eftir að öll kúgunin er úr sögunni — nú virðast allir afneita því að þeir hafi verið að kúga Íslendinga, Svíar og Norðmenn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, að ekki sé talað um Evrópusambandið eða Hollendinga og Breta. Það heldur því enginn fram að einhver kúgun sé í gangi þannig að nú gætum við kosið um það, bara í rólegheitunum, af því að ekkert liggur á, hvort lögin frá því í sumar eigi að gilda eða nýju lögin sem hér er verið að samþykkja. Þá verða menn að færa rök með því eða á móti sem vantar illilega í þessa umræðu, ég hef bara ekkert heyrt með þessu samkomulagi. Það er mjög lítið sem við heyrum frá stjórnarliðum um það af hverju þeir ætli að greiða atkvæði með samkomulaginu og þess vegna erum við dálítið í myrkri hvað það varðar.

Hæstv. ráðherra, Álfheiður Ingadóttir, hefur aldrei tjáð sig um Icesave, aldrei. Eftir að hafa lesið það sem hún segir á mbl.is og víðar, ég leitaði fanga víðar, fer maður að velta því fyrir sér hver afstaða hæstv. ráðherra sé. Getur verið að það sé svo notalegt að sitja í þessum ráðherrastólum að það sé ástæðan? Ég trúi því varla. Ég hygg að það sé frekar það að hæstv. ráðherra vilji koma hugmyndum sínum í framkvæmd í heilbrigðiskerfinu, það sé frekar það. Að hún meti það svo mikils að koma hugmyndum sínum í framkvæmd, hafa völd, hafa áhrif, að hún kjósi jafnvel að heyra ekki í öllum þeim viðvörunarbjöllum sem klingja, hlusta ekki á allt það sem hér hefur verið sagt, um stjórnarskrárbrot, um að verið sé að taka gífurlega áhættu fyrir þjóð hennar í þessu frumvarpi, ef verðhjöðnun verður í Bretlandi, ef lítið greiðist af eignum Landsbankans, ef neyðarlögin halda ekki o.s.frv. Þetta hafa menn allt nefnt og það er bara horft fram hjá því.

Mér finnst stundum eins og stjórnarliðar vilji ekki horfast í augu við vandann, þeir segja bara: Við skulum skutla þessu aftur fyrir okkur og síðan leysist það einhvern veginn af sjálfu sér hver útkoman verður. Þegar í harðbakkann slær verðum við bara að vona að Bretar og Hollendingar séu mildir og góðir húsbændur. Þá vil ég vara umhverfisverndarsinnana í Vinstri grænum við og nokkra umhverfisverndarsinna í Samfylkingunni, það kynni að vera að Bretar og Hollendingar vildu fá Landsvirkjun þegar við getum ekki borgað vextina, því að við eigum að borga vextina. Ef ríkið getur ekki borgað skuldbindingar sínar er það í mjög djúpum dal og verður að hlíta því sem kröfuhafar segja. Kröfuhafarnir munu segja: Ja, þið getið borgað með því að láta hollenskt fyrirtæki kaupa Landsvirkjun. Þið getið borgað með því að leyfa þeim að virkja dálítið myndarlega og horfa fram hjá öllum kröfum um náttúruvernd eða eitthvað slíkt. Bretar mundu segja: Þið getið leyft Skotum að veiða við Ísland t.d. og það mætti jafnvel selja þann veiðirétt til þess að þið getið borgað skuldina við okkur. En þið verðið að gera eitthvað vegna þess að þið skuldið okkur þessa peninga. Þið eruð búin að samþykkja lög um ríkisábyrgð og þetta er lánasamningur og hann gildir hvað sem tautar og raular. Það er ríkisábyrgð á honum og ríkisábyrgðin skal standa hvað sem raular og tautar. Menn verða, herra forseti, að fara að bera ábyrgð á því sem þeir eru að gera.