138. löggjafarþing — 45. fundur,  15. des. 2009.

breyting á heimildarlögum um stóriðju vegna skattgreiðslna 2010, 2011 og 2012 o.fl.

318. mál
[19:03]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo að við komum að því síðastnefnda þá tel ég að sú lending sem við höfum náð — að finna þetta þunna lag sem ég nefndi í fyrra andsvari mínu, þar sem ekki er verið að höggva í eina atvinnugrein í landinu í skattlagningunni heldur reynt að finna meðalveg og skapa sátt um þær aðgerðir sem farið er í — sé til þess fallin að Ísland haldi áfram að vera fýsilegur kostur fyrir nýfjárfestingar og fyrir erlendar fjárfestingar. Enda er það að sýna sig og við munum mæla fyrir máli á eftir sem fjallar einmitt um það. Þar erum við að gera fjárfestingarsamning við fyrirtæki sem er að koma hingað inn með nýjar fjárfestingar á sviði gagnavera.

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmenn eigi ekki að nota þetta mál til að reyna að gera það tortryggilegt. Þarna lagði ríkisstjórnin sig alla fram um það, eins og á öðrum sviðum, að halda frið, ná samkomulagi. Eingöngu þannig getum við komið okkur upp úr þeirri stöðu sem við erum í. Það eru mikilvæg skilaboð út á við gagnvart hugsanlegum nýjum fjárfestingum.

Eftir áramót leggjum við fram frumvarp — þannig að við séum ekki endalaust að fjalla um einstaka fyrirtæki í ræðustól, eins og við gerum núna, og einstaka fjárfestingarsamninga við einstaka fyrirtæki og sérstakar lagaheimildir utan um eitt og eitt fyrirtæki eins og raunin hefur verið í fortíðinni, það sem við erum að fjalla um í dag er afsprengi þess — sem fjallar almennt um ívilnanir sem veittar eru í nýfjárfestingum hér á landi þannig að þær verði gagnsæjar og þannig að vitað sé fyrir fram hvað er í boði fyrir þær. Bæði það hvernig við höfum meðhöndlað þetta mál, sömuleiðis það frumvarp og fleira til held ég að geri okkur fýsileg fyrir nýjar fjárfestingar og frekari fjárfestingar.