Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 16. desember 2009, kl. 18:42:41 (0)


138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[18:42]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fél.- og trn. (Guðmundur Steingrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Eins og ég fór yfir í upphafi ræðu minnar og gaf þar í skyn að það væri nánast orðinn fastur liður að maður gagnrýndi flýtinn á frumvörpum sem fara í gegnum hið háa Alþingi. Og það er auðvitað full ástæða til, eins og ég segi í mínu nefndaráliti, að hafa áhyggjur af þessari þróun, þetta má náttúrlega ekki verða einhver regla.

Vissulega varða sumir þættir frumvarpsins fjárlög næsta árs, eins og umtöluð breyting á fæðingarorlofi, þannig að ef stjórnarmeirihlutinn er haldinn þeim einlæga ásetningi að skera niður í Fæðingarorlofssjóði og ná sér þar í milljarð af væntanlegum foreldrum 2010 og 2011 þarf hann náttúrlega að samþykkja þetta sem fyrst. Svo eru náttúrlega aðrar breytingar þarna eins og gjaldið til Framkvæmdasjóðs aldraðra sem væntanlega þarf að samþykkja sem fyrst líka út af sömu ástæðu. Þarna er því ýmislegt sem þarf kannski út af ástæðum ríkisfjármála að samþykkja. En auðvitað er ég þeirrar skoðunar að fella eigi burt 16. gr. og þá yrði frumvarpið til muna einfaldara og auðveldara að samþykkja það í flýti, en hér er auðvitað verið að fara í talsverðum flýti enn og aftur í mjög umdeilanlegan og afleitan niðurskurð á Fæðingarorlofssjóði.