Almannatryggingar o.fl.

Miðvikudaginn 16. desember 2009, kl. 20:33:17 (0)


138. löggjafarþing — 48. fundur,  16. des. 2009.

almannatryggingar o.fl.

274. mál
[20:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það fer nú að verða dálítið leiðigjarnt þegar þeir sem stýra skútunni eru alltaf að vísa í fyrrverandi skipstjóra. Það er eins og þeir beri ekki ábyrgð á neinu sem þeir gera. Ég veit ekki betur en þessar hugmyndir og hringl með fæðingarorlofið sé frá hæstv. ráðherra komið. Ekki komu sjálfstæðismenn nálægt því. En það er alveg rétt hjá honum, Sjálfstæðisflokkurinn var einn í stjórn og Samfylkingin kom ekki nálægt því nema hæstv. utanríkisráðherra, hann er búinn að viðurkenna að hafa verið í stjórn. Kannski viðurkennir hæstv. félagsmálaráðherra líka að hann hafi verið stjórnarþingmaður á þeim tíma. En það er eins og menn séu að firra sig allri ábyrgð, kenna einhverjum öðrum um. Árinni kennir illur ræðari. Það gengur allt út á það.

Sjálfstæðisflokkurinn stóð að því að koma fæðingarorlofinu á. Sjálfstæðisflokkurinn stóð að því að taka upp örorkumatið og örorkunefndina. Hún starfaði meira að segja hjá forsætisráðherra. Þvílík áhersla var lögð á það. Þar komu allir aðilar að, Öryrkjabandalagið, Landssamband lífeyrissjóða, ASÍ og SA. Það voru allir aðilar sem unnu þar mjög markvisst og gott starf og það var undir handleiðslu forsætisráðherra sem þá var sjálfstæðismaður.

Talandi endalaust um það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið einn í stjórn þegar það hentar og ekki í stjórn þegar það hentar ekki. Menn eiga hreinlega að fara að taka ábyrgð á sínum eigin gerðum. Þessi ríkisstjórn hefur verið við stjórn í 11 mánuði og menn þurfa að fara að horfast í augu við það sem þeir eru að gera, t.d. Icesave-samkomulagið, það gerði núverandi ríkisstjórn alein.