Ráðstafanir í skattamálum

Laugardaginn 19. desember 2009, kl. 14:15:00 (0)


138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Þór Saari) (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér skattabreytingar og einhverjar skattahækkanir líka. Annar minni hluti efnahags- og skattanefndar hefur skilað af sér nefndaráliti um 239. mál.

Frumvarp þetta gengur út á breytingar á ýmsum lögum til að auka tekjur ríkissjóðs í samræmi við forsendur í frumvarpi til fjárlaga árið 2010: á lögum um virðisaukaskatt, lögum um bifreiðagjald, lögum um gjald af áfengi og tóbaki, lögum um olíugjald og kílómetragjald o.s.frv.

Annar minni hluti telur að fjölþrepa virðisaukaskattskerfi, þar sem markmiðið er að virðisaukaskattur á matvæli sé sem lægstur, sé æskilegt. Þó gerir 2. minni hluti athugasemd við það að samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans verði gosdrykkir, svo sem kóka kóla, áfram flokkaðir sem matvæli.

Um það er ekki deilt að staða ríkissjóðs er mjög slæm og einhvern veginn þarf að reyna að brúa þann gríðarlega halla sem blasir við. Ríkisstjórnin hefur valið svokallaða blandaða leið þar sem útgjöld eru skorin niður og skattar hækkaðir á almenning og fyrirtæki, leið sem 2. minni hluti telur að geti við þessar aðstæður verið bæði óheppileg og kannski ekki eins þörf og menn ætla.

Hér er líka verið að fara út í umtalsverðar hækkanir á gjöldum sem getur orkað mjög tvímælis. Þá hef ég sérstaklega í huga hækkanir á dómstólagjöldum, þ.e. áfrýjunargjöldum til Hæstaréttar og beini þeim tilmælum eindregið til ríkisstjórnarinnar að athugað verði með að auka framlög til gjafsóknar, því dómstólagjöld geta komið í veg fyrir að fólk nái fram rétti sínum fyrir dómstólum, sem er mjög varasamt ef við eigum að standa undir nafni sem réttarríki.

Heimilin standa ekki undir frekari skattahækkunum. Það er mat 2. minni hluta að hugmyndafræði um frekari hækkanir skatta á heimili eigi ekki við um þær aðstæður sem uppi eru á Íslandi í dag. Þó svo að Svíþjóð hafi á sínum tíma komist út úr sinni kreppu með skattahækkunum, þá fara þær auknu tekjur ríkissjóðs sem vænst er með skattahækkunum í það að greiða skuldir en ekki í það að auka veltu í samfélaginu. Annar minni hluti vonar að sjálfsögðu að hér sé um tímabundið ástand að ræða en ómögulegt er að segja til um hvað það varir lengi. Ljóst er að aukin skattheimta getur auðveldlega leitt til þess að kreppan dragist á langinn.

Annar minni hluti leggur líka áherslu á að aukin tekjuöflun ríkisins fer að stórum hluta í það að greiða vexti af skuldum. Það er þörf á að afla ríkissjóði tekna með öðrum hætti. Hreyfingin hefur lagt til að það verði frekar gert í gegnum þær útflutningsgreinar sem standa vel um þessar mundir. Hægt er að leggja mjög hófleg gjöld á auðlindir, t.d. sjávarútveg og stóriðju sem kaupir mikið af raforku, sem standa fyllilega undir þeim útgjöldum sem borga þarf. Jafnframt mundu þessir atvinnuvegir greiða sanngjörn og hófleg gjöld af því sem þeir hafa hingað til fengið ókeypis. Það væri ábyrg og skynsamleg leið.

Annar minni hluti lætur í ljós þá skoðun sína að stjórnvöld hafi í tekjufrumvörpum sínum látið undan þrýstingi áliðnaðarins og Samtaka atvinnulífsins. Hinn almenni borgari hefur ekki verið spurður álits. Svo virðist sem þrýstihópar hafi knúið ríkisstjórnina til að samþykkja lausn sem var þeim hentug.

Stór hluti ríkisútgjalda fer nú í að greiða vexti af lánum og allar auknar tekjur sem til falla vegna hærri skatta fara beint í þann útgjaldalið. Einnig er um að ræða umtalsverðan niðurskurð í ríkisútgjöldum með tilheyrandi samdrætti og uppsögnum starfsfólks í stórum stíl, þannig að í rauninni er æpandi þversögn í aðferðum ríkisstjórnarinnar sem hún segir auka eftirspurn.

Annar minni hluti vill að lokum lýsa undrun sinni á þeim vinnubrögðum sem viðgengist hafa við gerð þessara fjárlaga. Nú er mér sem nýjum þingmanni ekki kunnugt um hvort þetta eru eðlileg vinnubrögð, en það sem ég hef orðið vitni að við gerð þessara fjárlaga, hvort sem um er að ræða útgjaldahlið eða tekjuhlið, er alveg hreint með ólíkindum. Eins og komið hefur fram í ræðunni er verið að afgreiða skattahækkanir örfáum klukkutímum áður en þær eru teknar fyrir í þingsölum og lítill tími gefst til að skoða afleiðingar þeirra. Breytingar eru gerðar án þess að tilhlýðandi útreikningar á hvað þær kosta fylgi með. Þetta gildir hvort sem um er að ræða efnahags- og skattanefnd eða fjárlaganefnd. Viðamiklar breytingar á viðkvæmum tímum eru mjög varasamar og það ber ekki að afgreiða þær með þeim hætti sem gert er í þessum frumvörpum um skattheimtu og fjárlög. Takk.